„Þetta lítur einfaldlega þannig út fyrir okkur að þeir vilji ekki styrkja okkur nema gera svokallaðan samstarfssamning sem er í reynd bara einhliða vinnusamningur til þeirra. Þeir vilja hins vegar ekki kalla þetta þjónustukaup sem það er í raun,“ segir Kristinn Björgvinsson, formaður Björgunarsveitarinnar Skyggnis í Vogum, í samtali við mbl.is.
Kristinn birti á sunnudaginn færslu á Facebook þar sem hann fjallaði um samskipti björgunarsveitarinnar og sveitarfélagsins Voga. Færslan hefur vakið verulega athygli en þar segir Kristinn að sveitarfélagið vilji ekki lengur styrkja björgunarsveitina nema á móti komi beint vinnuframlag. Björgunarsveitarmenn séu alltaf boðnir og búnir að aðstoða borgarana en þeir vilji hins vegar ekki vera ódýrt vinnuafl fyrir hið opinbera.
Þannig hafi Vogar greitt björgunarsveitinni rúmar tvær milljónir í styrk á ári en 800 þúsund krónur af því hafi farið í kostnað við að halda flugeldasýningar á fjölskylduskemmtunum á vegum sveitarfélagsins. Eftir standi um 1,2 milljónir sem fari í það að standa undir rekstri á húsnæði og tækjabúnaði sveitarinnar svo hún geti verið til taks.
Vogar ætlist hins vegar til þess að fyrir styrkinn sjái björgunarsveitarmenn um gæslu á öllum viðburðum á vegum sveitarfélagsins. Um það verði gerður samstarfssamningur sem í raun snúist að mati björgunarsveitarmanna um að útvega Vogum ódýrt vinnuafl í störf sem sveitarfélagið yrði annars að greiða öðrum laun fyrir að vinna.
Þannig sé ekki um að ræða styrk ef nálgast eigi hlutina með þessum hætti heldur þjónustu- og vörukaup. Hins vegar hafi Vogar ekki viljað skilgreina greiðsluna með þeim hætti. Björgunarsveitin hafi í ljósi alls þessa slitið viðræðum við sveitarfélagið um áðurnefndan samstarfssamning. Eftir standi spurningin hvort Vogar vilji greiða björgunarsveitinni raunverulegan styrk eins og ýmsum öðrum félagasamtökum innan sveitarfélagsins.