Engar ættleiðingar úr flóttamannabúðum

Flóttamenn í búðum í Frakklandi. Eftirlitslaus börn geta átt ættingja …
Flóttamenn í búðum í Frakklandi. Eftirlitslaus börn geta átt ættingja sem leita þeirra og því er varasamt að ættleiða þau til annarra landa. AFP

Engin heimild er til staðar hér á landi til að greiða fyrir ættleiðingum barna úr flóttamannabúðum. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur um ættleiðingar munaðarlausra barna úr flóttamannabúðum.

Í svari ráðherra segir m.a. að Íslensk ættleiðing sé eina löggilta ættleiðingarfélagið hér á landi og það hafi löggildingu til að hafa milligöngu um ættleiðingar frá Búlgaríu, Filippseyjum, Indlandi, Kína, Kólumbíu, Tékklandi og Tógó.

Þar segir einnig að leitað hafi verið upplýsinga um ættleiðingar úr flóttamannabúðum í nágrannaríkjunum og að hvergi á Norðurlöndunum sé að finna heimildir sem leyfa slíkar ættleiðingar. Á því standi engar breytingar fyrir dyrum.

„Að mati finnskra stjórnvalda er talið rétt að varast slíkar ættleiðingar þar sem margvíslegar hættur tengjast þeim. Þar á meðal sé mjög mikilvægt að virða þá grundvallarreglu sem á ensku kallast ,,the subsidiarity principle“ en hún felur í sér í stuttu máli að ættleiðing á milli landa eigi einungis að koma til álita eftir að kannað hefur verið til þrautar hvort mögulegt sé að ráðstafa barni með fullnægjandi hætti í heimalandi þess. Í svari finnskra stjórnvalda er einnig bent á að mögulega geti fylgdarlaust barn í flóttamannabúðum átt foreldra eða nána ættingja á lífi. Þá er lögð þung áhersla á að mikilvægt sé að fá samþykki líffræðilegra foreldra barns fyrir ættleiðingu. Ef þau séu á hinn bóginn talin af verði að liggja fyrir staðfesting þess efnis með fullgildum dánarvottorðum. Þannig sé einfaldlega ekki nærri alltaf hægt að ganga úr skugga um það með óyggjandi hætti að börn í flóttamannabúðum séu í raun í þeirri stöðu að ættleiðing sé ásættanlegt úrræði. Önnur ríki á Norðurlöndunum hafa tekið undir þessi sjónarmið Finna,“ segir í svari ráðherra.

Spurningu þess efnis hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að auðvelda ættleiðingar frá svæðum þaðan sem flóttamenn koma svarar hann á þá leið að það sé fylgdarlausum börnum í flóttamannabúðum ekki fyrir bestu að auðvelda ferli við ættleiðingu á þeim til annarra landa, „þvert á móti er mikilvægt að fyllsta öryggis sé gætt enda ekki loku fyrir það skotið að fylgdarlaust barn í flóttamannabúðum eigi foreldri á lífi eða aðra nána fjölskyldumeðlimi. Þá er nærtækara, til verndar þessum börnum, að alþjóðlegt mannúðarstarf sem þegar er til staðar í flóttamannabúðum sé eflt og styrkt, svo sem starfsemi Rauða krossins, UNICEF og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka