Lögreglumenn kvarta til Umboðsmanns Alþingis

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landssamband lögreglumanna hefur óskað eftir því að Umboðsmaður Alþingis geri frumkvæðisathugun á því hvernig staðið var að ýmsum stöðuveitingum innan lögreglunnar. Bréf þess efnis var sent Umboðsmanni í gær.

Snorri Magnússon, formaður félagsins, segir bréfið byggja á fjölmörgum kvörtunum yfir að lögreglumenn hafi ýmist verið skipaðir eða fluttir í lausar stöður án auglýsinga.

„Þessar umkvartanir hafa borist frá félagsmönnum í nokkrum umdæmum,“ segir Snorri sem kveðst ekki vilja nefna umdæmin sérstaklega. „Þær eru þó nokkrar og búnar að vera að berast yfir lengra tímabil.“

Snorri segir lögreglumenn margsinnis hafa gert athugasemdir við slíkt vinnulag í gegnum tíðina og að Umboðsmaður hafi skilað frá sér fjöldamörgum álitum vegna stöðuveitinga í lögreglu. Miðað við heimasíðu félagsins eru álit Umboðsmanns í málaflokknum 23 talsins frá árinu 1993.

„Staðreyndin er sú að það er auglýsingaskylda á öllum lausum störfum hjá ríkinu nema að gefnum ákveðnum forsendum," segir Snorri og nefnir skammtíma afleysingar sem dæmi. „Undantekningarnar eru til en þær eru mjög fáar og mjög vel skilgreindar.“

Snorri segir að félagsmenn sem leitað hafi til landssambandsins hafi einnig fengið þær upplýsingar að starfsmannaskrifstofa Fjármálaráðuneytisins hafi bent lögreglustjórum á að þeir geti fært lögreglumenn á milli embætta á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Segir hann ákvæðið hinsvegar ekki koma í veg fyrir auglýsingaskylduna og ekki eiga við um þær stöðuveitingar sem félaginu hafa borist kvartanir yfir.

„Þetta er ekki bara eitthvað sem er að eiga sér stað innan lögreglu heldur víðar innan ríkisgeirans. Í því ljósi ákváðum við að senda þetta bréf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert