35% aðspurðra í könnun Siðmenntar um lífsskoðanir og trú Íslendinga telja sig eiga samleið með Þjóðkirkjunni. Þá sögðu 46-47% aðspurðra sig eiga litla eða enga samleið með henni.
Könnun Siðmenntar, Lífsskoðanir Íslendinga var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu á netinu og fór fram dagana 13. – 25. nóvember 2015. Íslendingar af báðum kynjum á aldrinum 18-75 ára af öllu landinu tóku þátt og svarendur voru 821 talsins. Gögnin voru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu til þess að svörin endurspegli sem berst afstöðu þjóðarinnar.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eiga karlar frekar samleið með Þjóðkirkjunni en konur og með hækkandi aldri aukast líkur á því að fólk telji sig eiga samleið með Þjóðkirkjunni. Þá eru Reykvíkingar ólíklegri en aðrir til að telja sig eiga samleið með Þjóðkirkjunni.
Þegar svör eru greind eftir stjórnmálaafstöðu má sjá að kjósendur Framsóknarflokksins eru líklegri en kjósendur annarra flokka til að segjast eiga mikla samleið með Þjóðkirkjunni. Kjósendur Pírata eru ólíklegastir til að eiga samleið með henni.
Tæpur helmingur svarenda eða 49% eru hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju en tæplega 19% eru andvíg honum. 32% eru hvorki hlynntir né andvígir aðskilnaði.
Í kynningu könnunarinnar kemur fram að meðaltalið er 3,54 sem þýðir að meðaltalið liggur mitt á milli þess að svarendur séu að meðaltali rekar hlynntir aðskilnaði og hvorki hlynntir né andvígir.
Þegar aðeins er litið til þeirra sem taka afstöðu, sem sé þeirra sem eru hlynntir eða andvígir, eru ríflega 72% hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju en tæplega 28% andvíg. Konur, þeir yngstu, Reykvíkingar, háskólamenntaðir og Píratar eru hlynntari aðskilnaði en samanburðarhópar. Til að mynda eru 52% aðspurðra kvenna hlynntar aðskilnaði en 13% andvíg. Þá eru 46% karla hlynntir en 24% andvígir. En í yngsta aldurshópnum, það er undir 25 ára aldri, eru 74% hlynntir aðskilnaði en enginn andvígur.
Í öllum aldursflokkum má sjá stuðning við aðskilnað ríkis og kirkju. Íbúar höfuðborgarsvæðis eru helstu stuðningsmenn aðskilnaðar og aðeins meðal stuðningsmanna Framsóknarflokksins er stuðningur við óbreytt ástand. Þá eru 43% Framsóknarmanna og 36% Sjálfstæðismanna óákveðnir.
Spurt var út í 62. grein stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og að ríkisvaldið skuli að því leyti styðja hana og vernda. 47-48% aðspurðra voru hlynntir því að þetta ákvæði yrði fellt úr stjórnarskránni en tæplega 30% voru því andvíg. Þá voru 22-23% hvorki hlynnt né andvíg.
Yngstu svarendurnir eru mun hlynntari en þeir eldri, höfuðborgarbúar eru hlynntari en íbúar landsbyggðarinnar, þeir sem hafa lokið háskólapróf i eru hlynntari en þeir sem hafa lokið minni menntun og þeir sem eiga litla samleið með Þjóðkirkjunni eru hlynntari því en þeir sem eiga mikla samleið með henni. Þá eru þeir hlynntari sem segja trú og lífsskoðun skipta sig almennt litlu máli en þeir sem segja það skipta sig miklu máli.
Kjósendur Pírata og Vinstri grænna eru mun hlynntari því að þetta ákvæði verði fellt út en kjósendur annarra flokka.
Þá telja 46% svarenda ríki ekki eiga að styrkja trú- eða lífsskoðunarfélög og um 29% telja að ríkið eigi að styrkja Þjóðkirkjuna hlutfallslega meira en önnur trú- og lífsskoðunarfélög. Þá er um fjórðungur sem segir að styrkja eigi Þjóðkirkjuna og önnur trúar- og lífsskoðunarfélög hlutfallslega jafnt . Þannig má sjá að aðeins um 29% vilja óbreytt ástand, þ.e. að ríkið styrki Þjóðkirkjuna umfram önnur trú- og lífsskoðunarfélög.
Karlar telja fremur en konur að ríkið eigi að styrkja Þjóðkirkjuna hlutfallslega meira en önnur trú- og lífsskoðunarfélög og þeir sem telja sig eiga mikla samleið með Þjóðkirkjunni telja fremur en aðrir að ríkið eigi að styrkja Þjóðkirkjuna hlutfallslega meira.
Þá eru kjósendur Pírata líklegri en kjósendur annarra flokka til að telja að ríkið eigi ekki að styrkja trú- og lífsskoðunarfélög.
Um 40% styðja núverandi fyrirkomulag um að ungbarn sé skráð sjálfkrafa í félag foreldra en um 30% vilja ekki að ríkið haldið skrá yfir hvaða trú- eða lífsskoðanir fólk aðhyllist og að ríkið hætti skráningu barna eða fullorðinna í félögin og um 30% vilja að sjálfkrafa skráningu sé hætt.
Þá eru karlar eru mun líklegri en konur til að vilja halda í núverandi fyrirkomulag og eldra fólk vill núverandi fyrirkomulag fremur en það yngra. Þeir sem hafa minni menntun vilja fremur núverandi fyrirkomulag en þeir sem hafa lokið meiri menntun og kjósendur Framsóknarflokksins vilja mun fremur halda í núverandi fyrirkomulag en kjósendur annarra flokka.
Meirihluti kjósenda stjórnarflokkanna vill halda í núverandi fyrirkomulag en minnihluti annarra kjósenda.