Fyrsta varan sem fyrirtækið Hagar ætlar að bjóða upp á sem heildsöluaðili áfengis er Euroshopper-bjór. Hann verður fáanlegur í verslunum ÁTVR en ef áfengisfrumvarpið verður samþykkt verður hann seldur bæði í verslunum Hagkaupa og Bónuss.
„Þetta er vörumerki sem við erum að selja í verslunum okkar. Við væntum þess að varan verði komin í sölu eftir ekki alltof margar vikur,“ segir Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Hálfur lítri af bjórnum, sem er framleiddur í Hollandi, verður líklega seldur á í kringum 250 krónur stykkið.
Euroshopper-bjórinn hefur verið til sölu í nokkrum löndum, þar á meðal í Bretlandi. Finnur kveðst ekki hafa smakkað hann sjálfur en segir hann hafa fengið mjög góða einkunn í bragðprófunum.
Frumvarp um að sala áfengis verði gefin frjáls hefur ekki verið afgreitt á Alþingi. Það var lagt fyrir bæði á síðasta og þar síðasta þingi og bíður annarrar umræðu eftir breytingartillögu.
Árið 2007 hafði Bónus í hyggju að selja Euroshopper-bjór í verslunum sínum en ekkert varð af því. Þá lá einnig fyrir frumvarp á Alþingi um að sala áfengis yrði gefin frjáls.
Frétt mbl.is: Í startholunum með Euroshopper-bjór
„Eins og staðan er núna eru fjölmargir sem vinna við heildsölu á áfengi og enn fleiri sem vinna við smásölu á áfengi. Það eru mörg hundruð aðilar sem er nú þegar heimilt að selja áfengi til einstaklinga, þó svo að verslunum sé meinað að selja áfengi,“ segir Finnur. „Allir þeir sem stunda veitingarekstur, eru í ferðaþjónustu eða öðru eru einkaaðilar sem eru að selja áfengi til einstaklinga.“
Hann telur það þjóðhagslega hagkvæmt að Hagar fái að selja áfengi í sínum verslunum. „Ríkið getur náð þeim tekjum sem það vill fyrir þennan vöruflokk án þess að bera þann kostnað sem það ber í dag. Þar fyrir utan er þetta hagræði fyrir kaupendur.“
Finnur segir heildsölu áfengis vera eðlilegt framhald fyrir Haga. „Það eru fjölmargir með heildsöluleyfi fyrir áfengi og núna erum við að fara inn á þennan markað. Við teljum okkur geta boðið góða vöru á góðu verði þar eins og annars staðar,“ segir hann og bætir við að fleiri áfengistegundir muni fylgja í kjölfar Euroshopper-bjórsins.
Þrátt fyrir að stefna að því að selja áfengi í verslunum Bónuss þá er enn bannað að selja þar tóbak. Kemur til greina að breyta þeirri tilhögun eitthvað? „Það hefur engin ákvörðun verið tekin um það. Það er til skoðunar á hverjum tíma fyrir sig.“