Karlar trúa frekar en konur

Karlar trúa frekar en konur og eru síður óvissir um …
Karlar trúa frekar en konur og eru síður óvissir um hvort þeir trúi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tæpur helmingur svarenda í nýrri könnun Siðmenntar telja sig vera trúaða en um 30% segjast ekki vera trúuð. Þá eru hartnær 24% sem geta ekki sagt til um hvort þau séu trúuð eða ekki. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunnar Siðmenntar, Lífsskoðanir Íslendinga og trú, sem birt var í dag.

Könnunin var lögð fyr­ir Þjóðgátt Maskínu á net­inu og fór fram dag­ana 13. – 25. nóv­em­ber 2015. Íslend­ing­ar af báðum kynj­um á aldr­in­um 18-75 ára af öllu land­inu tóku þátt og svar­end­ur voru 821 tals­ins. Gögn­in voru vigtuð með til­liti til kyns, ald­urs og bú­setu til þess að svör­in end­ur­spegli sem berst af­stöðu þjóðar­inn­ar.

Augljós munur eftir aldri

Í könnuninni voru þátttakendur spurðir hvort þeir teldi sig trúaða eða ekki. 46,4% sögðu sig trúaða en 29,9% sögðust ekki vera trúaðir. Þá sögðust 23,7% ekki geta sagt til um það hvort þeir væru trúaðir eða ekki.

48,8% karla sögðust vera trúaðir á meðan 33,2% sögðust ekki vera trúaðir. 44% kvenna sögðust vera trúuð en 26,6% sögðust ekki trúa. Þá sögðust tæplega 30% kvenna eða 29,4% ekki geta sagt til um hvort þær væru trúaðar eða ekki og 17,9% karla.

Þá var augljós munur á skoðun fólks eftir aldri en 61,3% 55 ára og eldri töldu sig trúaða á meðan 17,4% svarenda sem eru 25 ára og yngri. Rúmur helmingur 25 ára og yngri sögðust ekki vera trúaðir eða 52,3%.

36% sögðust trúa á Guð, Jesú upprisuna og eilíft líf, …
36% sögðust trúa á Guð, Jesú upprisuna og eilíft líf, þ.e. aðhyllast boðskap Biblíunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Flestir trúa á Suðurlandi og Reykjanesi

Hlutfall trúaðra var hæst á Suðurlandi og Reykjanesi en þar sögðust 63,2% aðspurðra telja sig trúaða. Lægsta hlutfallið var í Reykjavík eða 39,2%.

Hlutfall þeirra sem töldu sig ekki trúaða var töluvert hærra meðal þeirra með háskólapróf en þeirra með grunnskólapróf. 38% þeirra með háskólapróf sögðust ekki trúaðir en 16,3% þátttakenda með grunnskólapróf. 54,3% þeirra með grunnskólapróf töldu sig trúaða en 29,4% gátu ekki sagt til um hvort þeir væru trúaðir eða ekki. 48% þátttakenda með framhaldsskólapróf/iðnmenntun sögðust vera trúaðir en 28,9% ekki trúaðir. Þá sögðust 23,1% ekki geta sagt til um hvort þeir væru trúaðir eða ekki.

41,2% þeirra sem höfðu lokið háskólaprófi sögðust vera trúaðir en 20,8% sögðust ekki geta sagt til um það.

Framsóknarmenn trúaðri en aðrir

Áhugavert er að skoða stjórnmálaskoðanir þátttakenda útfrá trúarskoðunum en 69,9% þeirra sem sögðust mynda kjósa Framsóknarflokkinn í dag sögðust vera trúaðir.

Hlutfallið var lægst á meðal kjósenda Bjartar framtíðar (29,6%) og Pírata (30,7%). Hinsvegar sögðust flestir kjósendur Pírata ekki telja sig trúaða eða 49,2%. 35% kjósenda Bjartar framtíðar sögðust ekki geta sagt til um hvort þeir væru trúaðir eða ekki.

Ekki vissir um tilvist Guðs en trúa á boðskapinn

68,8% aðspurðra sögðust játa kristna trú en 43,4% þeirra sögðust ekki með öllu viss um tilvist Guðs en trúir á boðskap kristninnar og siðferði hennar.

Slétt 36% trúa á Guð, Jesú, upprisuna og eilíft líf , þ.e. aðhyllast boðskap Biblíunnar. Karlar eru líklegri en konur til að aðhyllast boðskap Biblíunnar. Eldri svarendur aðhyllast hann fremur en yngri, en á hinn bóginn er yngra fólk líklegra en það eldra til að segjast tilheyra kristinni hefð.

Þeir sem hafa stystu skólagöngu aðhyllast fremur boðskap Biblíunnar en þeir sem hafa setið lengur í skóla. Þá eru þeir sem telja sig eiga litla samleið með kirkjunni líklegri til að vera trúlausir en aðrir. Kjósendur Vinstri grænna eru líklegri en kjósendur annarra flokka til að segjast ekki vissir um tilvist Guðs en trúi á boðskap kristninnar og siðferði hennar.

Frá bænastund í Grafarvogskirkju.
Frá bænastund í Grafarvogskirkju. mbl.is/Árni Sæberg

Margir trúa á Miklahvell

22,6% aðspurðra sögðust vera trúlausir og af þeim voru 40,5% undir 25 ára aldri og var hæsta hlutfallið í þeim aldurshóp en lægst í aldurshópnum 55 ára og eldri eða 11,8%. Hlutfallið var þá hæst meðal íbúa Reykjavíkur eða 31,4% og lægst á Austurlandi eða 7,1%.

1,9% sögðust trúa á það góða og 0,9% á æðri mátt. 0,8% sögðust játa ásatrú en 0,5% búddíska trú. 4,5% sögðust trúa á annað og nefndu m.a. „Gyðjuna“, „Líf eftir dauðann“, „Stokka og steina“ og „Lífsspeki“ í því samhengi.

Þátttakendur könnunarinnar voru einnig spurðir hvernig þeir haldi að heimurinn hafi orðið til. Flestir eða 61,9% sögðu hann hafa orðið til í Miklahvelli (Big bang). 17,7% sögðu að Guð hefði skapað heiminn en 8,3% sögðust ekki vita það eða hafa ekki skoðun. 12,1% svöruðu „annað“ og nefndu m.a. nokkrir að Guð hafi orsakað Miklahvell og þannig skapað heiminn. Aðrir nefndu Þróunarkenningu Darwins og hægfara þróun í milljónir ára.

Konur frekar sammála trúarlegu hlutleysi skóla

Rösklega 55% eru sammála því að leikskólar og grunnskólar í eigu hins opinbera eigi að halda trúarlegu hlutleysi en um fjórðungur er því ósammála. Meðaltalið (3,55) er á milli „Hvorki né“ og „Frekar sammála“. Þegar hlutföll eru reiknuð milli þeirra sem eru sammála annars vegar og ósammála hins vegar (án þeirra sem segja hvorki né) eru 69% sammála en 31% ósammála þessu.

Konur eru fremur sammála trúarlegu hlutleysi í skólum hins opinbera en karlar, yngri svarendur fremur sammála en þeir eldri,Reykvíkingar fremur sammála en aðrir og kjósendur Vinstri grænna og Pírata eru fremur sammála en kjósendur annarra flokka. Þá er hér obbi þeirra sem eru ekki trúaðir sammála (84,7%), ríflega þriðjungur trúaðra (36,2%), en yfir helmingur þeirra sem geta ekki sagt til um hvort þeir eru trúaðir eða ekki.

mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert