Mikill meirihluti hlynntur líknandi dauða

Þrír af hverjum fjórum eru hlynntir því að einstaklingur geti …
Þrír af hverjum fjórum eru hlynntir því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda endi á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Þrír af hverjum fjórum eru hlynntir því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda endi á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi en um 7% eru því andvíg. Þetta kemur fram í niðurstöðu könnunar Siðmenntar, Lífsskoðanir Íslendinga og trú, en hún var birt í dag.

30,4% aðspurðra sögðust mjög hlynntir líknandi dauða en 44,5% frekar hlynntir. 18% sögðust vera hvorki né en 4% frekar andvígir. Þá voru 3,1% sem sögðust vera mjög andvígir líknandi dauða.

Könn­un­in var lögð fyr­ir Þjóðgátt Maskínu á net­inu og fór fram dag­ana 13. – 25. nóv­em­ber 2015. Íslend­ing­ar af báðum kynj­um á aldr­in­um 18-75 ára af öllu land­inu tóku þátt og svar­end­ur voru 821 tals­ins. Gögn­in voru vigtuð með til­liti til kyns, ald­urs og bú­setu til þess að svör­in end­ur­spegli sem berst af­stöðu þjóðar­inn­ar.

Yngra fólk hlynntara en það eldra

Þegar rýnt er í niðurstöðuna kemur í ljós að hlutfall kvenna og karla sem eru hlynntir líknandi meðferð er næstum því jafnt. 75,3% karla eru hlynntir en 74,6% kvenna.

Yngra fólk er hlynntara líknandi dauða en það eldra. 88,1% aðspurðra undir 25 ára aldri sögðust vera hlynntir líknardauða. Lægsta hlutfallið var í elsta aldurshópnum, 55 ára og eldri eða 65,6%. Þeir sem eiga litla eða enga samleið með Þjóðkirkjunni eru hlynntari líknandi dauða en þeir sem eiga mikla samleið með þeim.

77,9% þeirra sem segja trú eða lífsskoðun skipta litlu máli almennt voru hlynntir líknandi dauða. Þeir sem svöruðu því að trú skipti þá miklu máli almennt voru hlynntir líknandi dauða í 69,3% tilvika.

Yngra fólk er hlynntara líknandi dauða en það eldra ef …
Yngra fólk er hlynntara líknandi dauða en það eldra ef marka má könnun Siðmenntar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Svipað hlutfall milli menntunnar

Svo virðist sem menntun fólks hafi ekki áberandi áhrif á skoðun þeirra á líknandi dauða en 72,4% þeirra sem eru með grunnskólapróf eru hlynntir líknandi dauða, 76% þeirra með framhaldsskólapróf eða iðnmenntun og 75,2% þeirra með háskólapróf.

Þegar litið er á skoðun fólks eftir landshlutum má sjá að íbúar nágranna sveitarfélögum Reykjavíkur er hlynntastir líknandi dauða eða 83,2%. Hlutfallið er lægst á Norðurlandi eða 67,8%.

Flestir andvígir í Sjálfstæðisflokknum

Ef litið er á skoðun fólks á líknandi dauða útfrá stjórnmálaskoðunum má sjá að hæsta hlutfallið er meðal kjósenda Pírata eða 84,5%. Lægsta hlutfallið er þó á meðal Framsóknarmanna eða 67,6%. Flestir þeirra sem eru andvígir líknandi dauða sögðust styðja Sjálfstæðisflokkinn (12,8%) og Samfylkinguna (12%).

66,3% þeirra sem sögðu sig trúaða sögðust vera hlynntir líknandi dauða en 84,9% þeirra sem telja sig ekki trúaðan. 79% þeirra sem sögðust ekki geta sagt til um trú sína voru  hlynntir líknandi dauða. Hæsta hlutfall þeirra sem voru andvígir líknandi dauða voru trúaðir eða 10%. 4,3% andvígra voru ekki trúaðir en 5% gátu ekki sag til um trú.

Afstaða Íslendinga til líknardráps var síðast könnuð af Price Waterhouse Coopers árið 2001 en þá voru 46,4% fylgjandi líknardrápi og þriðjungur því andvígur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert