Þrír af hverjum fjórum eru hlynntir því að einstaklingur geti fengið aðstoð við að binda endi á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi en um 7% eru því andvíg. Þetta kemur fram í niðurstöðu könnunar Siðmenntar, Lífsskoðanir Íslendinga og trú, en hún var birt í dag.
30,4% aðspurðra sögðust mjög hlynntir líknandi dauða en 44,5% frekar hlynntir. 18% sögðust vera hvorki né en 4% frekar andvígir. Þá voru 3,1% sem sögðust vera mjög andvígir líknandi dauða.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu á netinu og fór fram dagana 13. – 25. nóvember 2015. Íslendingar af báðum kynjum á aldrinum 18-75 ára af öllu landinu tóku þátt og svarendur voru 821 talsins. Gögnin voru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu til þess að svörin endurspegli sem berst afstöðu þjóðarinnar.
Þegar rýnt er í niðurstöðuna kemur í ljós að hlutfall kvenna og karla sem eru hlynntir líknandi meðferð er næstum því jafnt. 75,3% karla eru hlynntir en 74,6% kvenna.
Yngra fólk er hlynntara líknandi dauða en það eldra. 88,1% aðspurðra undir 25 ára aldri sögðust vera hlynntir líknardauða. Lægsta hlutfallið var í elsta aldurshópnum, 55 ára og eldri eða 65,6%. Þeir sem eiga litla eða enga samleið með Þjóðkirkjunni eru hlynntari líknandi dauða en þeir sem eiga mikla samleið með þeim.
77,9% þeirra sem segja trú eða lífsskoðun skipta litlu máli almennt voru hlynntir líknandi dauða. Þeir sem svöruðu því að trú skipti þá miklu máli almennt voru hlynntir líknandi dauða í 69,3% tilvika.
Svo virðist sem menntun fólks hafi ekki áberandi áhrif á skoðun þeirra á líknandi dauða en 72,4% þeirra sem eru með grunnskólapróf eru hlynntir líknandi dauða, 76% þeirra með framhaldsskólapróf eða iðnmenntun og 75,2% þeirra með háskólapróf.
Þegar litið er á skoðun fólks eftir landshlutum má sjá að íbúar nágranna sveitarfélögum Reykjavíkur er hlynntastir líknandi dauða eða 83,2%. Hlutfallið er lægst á Norðurlandi eða 67,8%.
Ef litið er á skoðun fólks á líknandi dauða útfrá stjórnmálaskoðunum má sjá að hæsta hlutfallið er meðal kjósenda Pírata eða 84,5%. Lægsta hlutfallið er þó á meðal Framsóknarmanna eða 67,6%. Flestir þeirra sem eru andvígir líknandi dauða sögðust styðja Sjálfstæðisflokkinn (12,8%) og Samfylkinguna (12%).
66,3% þeirra sem sögðu sig trúaða sögðust vera hlynntir líknandi dauða en 84,9% þeirra sem telja sig ekki trúaðan. 79% þeirra sem sögðust ekki geta sagt til um trú sína voru hlynntir líknandi dauða. Hæsta hlutfall þeirra sem voru andvígir líknandi dauða voru trúaðir eða 10%. 4,3% andvígra voru ekki trúaðir en 5% gátu ekki sag til um trú.
Afstaða Íslendinga til líknardráps var síðast könnuð af Price Waterhouse Coopers árið 2001 en þá voru 46,4% fylgjandi líknardrápi og þriðjungur því andvígur