Lögreglukonan Inga Birna Erlingsdóttir lenti í heldur óskemmtilegri reynslu við skyldustörf á þrettándabrennu um helgina þegar hún fótbrotnaði. Var hún á gangi rétt við brennuna, þar sem talsverð hálka var, þegar hún uppgötvar að hún hafi stigið eitthvað illa niður sem seinna reynist vera mjög slæmt fótbrot. Þegar hún tilkynnti um brotið í talstöðina segir hún að flestir hafi talið sig hafa dottið af mótorhjóli eða eitthvað þaðan af verra, en Inga er ein af helstu mótorhjólakonum landsins.
„Ég rann ekki né datt,“ segir Inga í samtali við mbl.is og bætir við: „Þetta er súrealískt, er enn að velta fyrir mér hvernig þetta gat gerst.“ Hún rifjar upp að nálægt brennunni í Gufunesi hafi verið tilkynnt um eld í sinu. Hún hafi verið við umferðaeftirlit nálægt staðnum en fengið það verkefni að athuga með sinubrunann. Þegar hún var að ganga í áttina að krökkum sem voru þar nálægt hafi hún allt í einu fundið verk í fætinum og séð að hún gæti ekki lengur stigið í fótinn.
Sársaukinn kom svo nokkuð fljótt og Inga segir að hún hafi lagst í jörðina og kallað eftir aðstoð í talstöð og sagst vera fótbrotin. Aðrir lögreglumenn og sjúkraflutningamenn voru fljótir á vettvang og segist Inga þakka þeim vel fyrir aðkomu þeirra að málinu. Brotið var slæmt þar sem hún fór úr ökklalið og fóturinn brotnaði við það. Þá slitnuðu bæði liðböndin og ljóst að Inga verður í einhvern tíma frá æfingum og störfum vegna atviksins „Ég hef aldrei brotnað áður, en geri það almennilega þegar af því verður,“ segir hún og bætir við að þetta sé auðvitað pínu kjánalegt atvik.
Inga var í fréttum á síðasta ári þar sem hún var fyrsta konan í mótorhjóladeild lögreglunnar í sjö ár og sú sjöunda frá upphafi umferðadeildar og svo var hún nálægt því að tryggja sér sæti í fyrsta kvennaliði GS bikars BMW, en þar er keppt á R1200 GS mótorhjólum frá BMW. Var keppnin haldin í Suður-Afríku og fékk Inga eftir keppnina sérstakt boð um að taka þátt í næstu undankeppni eftir tvö ár.
Það sem gerir þetta atvik enn súrara er að Inga hafði stöðu varamanns í BMW hópinn og var næst inn í liðið. Með þessu broti er aftur á móti útséð að ekki verður af því.
Í ljósi þess að Inga er mjög reglulega á 230 kílóa mótorhjóli í allskonar torfæru og kappakstri þar sem hún hefur ekki meiðst neitt hingað til segir hún það grátbroslegt að hún lendi svo að lokum í slæmum áverka við það eitt að ganga. Segir hún suma samstarfsfélaga sína hafa bent henni á að hún væri betri á tveimur hjólum en tveimur jafnfljótum.
Eftir að hafa farið upp á spítala fór Inga í aðgerð og voru settar sjö skrúfur og plata í ökklann á henni. Segir hún að þrátt fyrir geta lítið gert næstu daga vonist hún til þess að geta byrjað að þjálfa sig upp strax og hún geti farið að ganga um, allavega efri hluta líkamans ef fæturnir séu ekki tilbúnir í mikil átök strax.