Ekki lostugt að pissa fyrir framan lögreglumenn

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Hæstiréttur sýknaði í dag mann af ákæru um að hafa brotið gegn blygðunarsemi þriggja lögreglumanna með því að handleika á sér getnaðarliminn fyrir framan þá. Maðurinn neitaði að hafa gert annað en að kasta af sér vatni en hann var dæmdur fyrir athæfið í héraði.

Atvikið átti sér stað við skemmtistaðinn Spot í Kópavogi 14. desember árið 2014. Þá höfðu lögreglumenn afskipti af manninum þar sem hann stóð utan við húsið. Í ákæru og dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kom fram að hann hafi horft á lögreglumennina þar sem þeir sátu inn í bíl sínum og handleikið á sér getnaðarliminn. Því hafi hann haldið áfram eftir að tveir lögreglumannanna stigu út úr lögreglubílnum og gengu í áttina að honum. Héraðsdómur dæmdi hann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Hæstiréttur sýknaði manninn hins vegar á þeim forsendum að allt frá því að lögreglan hafði afskipti af honum hafi maðurinn neitað að hafa gert annað en að handleika á sér liminn þegar hann var að kasta af sér vatni og í kjölfar þess. Ákæruvaldið hafi ekki mótmælt þeirri frásögn hans. Því taldi Hæstiréttur að háttsemi mannsins fæli ekki í sér lostugt athæfi sem hefði getað sært blygðunarsemi lögreglumannanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert