Lögin tólf sem hafa verið valin til þátttöku í Söngvakeppni Sjónvarpsins 2016 verða frumflutt á Rás 2 á morgun, föstudag.
Flutningurinn hefst í Virkum morgnum eftir kl. 9.00 þar sem sex lög verða leikin og eftir hádegið verða hin lögin leikin í Popplandi. Lögin verða í framhaldinu sett inn á vef Söngvakeppninnar á Ruv.is.
30 ár eru liðin síðan Íslendingar tóku fyrst þátt í Eurovison-keppninni. Þá hélt ICY-hópurinn utan með lag Magnúsar Eiríkssonar, Gleðibankann.
Haldið verður upp á 30 ára afmælið með pompi og prakt. Fyrri undankeppnin fer fram í Háskólabíói laugardaginn 6. febrúar og seinni undankeppnin verður þar viku síðar. Keppninni lýkur svo með úrslitakeppni í Laugardalshöll 20. febrúar þar sem öllu verður til tjaldað.
Kynnar keppninnar í ár eru Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Guðrún Dís Emilsdóttir.
Sigurlagið verður framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem haldin verður í Stokkhólmi í Svíþjóð dagana 10., 12. og 14. maí.
Eins og í fyrra býðst almenningi að sjá keppnina með eigin augum í Háskólabíói og Höllinni og hefst miðasala á viðburðina þriðjudaginn 19. janúar kl. 12.00 á Tix.is
Hægt verður að kaupa miða á staka viðburði, en einnig verður í boði sérstakur tilboðspakki, Alla leið-pakkinn, sem gildir á öll þrjú kvöldin.