Tillaga um þrengingu á Grensásvegi sem samþykkt var í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í gær var breytt í samráði við slökkvilið frá því að hún kom fyrst fram. Slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins segir slökkvilið og sjúkraflutninga geta vel við unað eftir breytingarnar.
Til stendur að þrengja Grensásveg á milli Miklubrautar og Bústaðarvegar. Fækka á akreinum úr fjórum í tvær og leggja göngu- og hjólreiðastíga hvoru megin við götuna. Framkvæmdinni er meðal annars ætlað að draga úr hraðri bílaumferð um hverfið.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, segir að slökkviliðið, sem einnig sér um sjúkraflutninga, hafi verið ósátt við upphaflegu tillöguna. Breytingar hafi hins vegar verið gerðar á fyrstu tillögunni þannig að slökkvilið hafi getað lifað þokkalega við þá sem nú var samþykkt. Til dæmis geti strætisvagnar nú farið nær skýlum þannig að umferð stoppar ekki fyrir aftan þá.
„Það má segja að samheiti yfir breytingarnar hafi verið að flæði sjúkraflutninga og slökkviliðs varð greiðari eftir breytinguna en fyrir,“ segir slökkviliðsstjórinn.
Slökkviliðið telur því ekki að fyrirhuguð þrenging Grensásvegar hamli umferð sjúkraflutningabifreiða að Landspítalanum í Fossvogi eftir breytingarnar á tillögunni.
„Eftir rýni okkar og skipulagsyfirvalda gerðum við ákveðnar breytingar sem gera það að verkum að við getum vel við unað,“ segir Jón Viðar.
Fyrri frétt mbl.is: Fækka akreinum og leggja göngu- og hjólastíga