Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, SVF, skora á stjórnvöld að leggja til aukna fjármuni til að mæta þeim gríðarlega rekstrarvanda sem hjúkrunarheimili og aðrar öldrunarstofnanir landsins glíma nú við.
Þetta kemur fram í ályktun sem var samþykkt á félagsfundi samtakanna sem var haldinn í dag.
Þar segir að uppsafnaður rekstarhalli sem hefur myndast vegna fjárskorts undanfarin ár veldur því að rekstur stofnananna stefnir í þrot.
Þess er krafist að stjórn SFV fái sameiginlegan fund með forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra þar sem farið verður yfir stöðu mála.
Hér fyrir neðan má sjá ályktunina í heild sinni:
„Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu skora á stjórnvöld að leggja til aukna fjármuni til að mæta þeim gríðarlega rekstrarvanda sem hjúkrunarheimili og aðrar öldrunarstofnanir landsins glíma nú við. Uppsafnaður rekstrarhalli sem myndast hefur vegna fjárskorts undanfarin ár veldur því að rekstur þessara stofnana stefnir í þrot. Einnig eru mörg heimili enn með gríðarlegar skuldir vegna lífeyrisskuldbindinga starfsmanna, en samkvæmt samkomulagi SFV við ríkissjóð átti slíku uppgjöri að vera lokið fyrir mitt ár 2015. Viðræður eru vart hafnar um slíkt uppgjör.
Til viðbótar þeim vanda sem hlýst af fjárskorti til reglubundins rekstrar, eru önnur vandamál sem taka þarf á sérstaklega. Ríkið hefur hingað til hafnað því að greiða hjúkrunarheimilum og öldrunarstofnunum húsaleigu. Hefur það valdið því að ýmist hefur húsnæði legið undir skemmdum og er orðið úrelt, eða að heimilin sjálf hafa fjármagnað endurbætur en fá engar greiðslur til að standa undir þeim kostnaði. Sú aðstaða er ótæk og endar bara með ónýtum húsakosti og/eða greiðsluþroti. Þá hafa árum saman rangar forsendur verið lagðar til grundvallar við útreikning verðlags – og launabóta sem veldur því að daggjöld hækka ekki í réttu hlutfalli á milli ára. Slíkt verklag eykur bara á rekstrarvandann. Í því sambandi skal því haldið til haga að launakostnaður er langhæsti kostnaðarliðurinn í rekstri hjúkrunarheimila og nemur yfir 80% af reglulegum kostnaði.
Gerð þjónustusamnings sem kveður á um réttindi og skyldur hjúkrunarheimila og annarra öldrunarstofnana, er lögbundin skylda og eðlileg krafa í nútíma stjórnsýslu, annað er beinlínis ámælisvert. Mikilvægt er að slíkir samningar taki með sanngirni til allra þátta í þjónustukröfulýsingum velferðarráðuneytisins og landlæknis. Ganga þarf frá öllum ofangreindum atriðum með ásættanlegum hætti til að hægt verði að skrifa undir slíka þjónustusamninga. Stjórnvöld þurfa að sjá til þess að viðhlítandi fjármagn fáist til samningagerðar.
Fundurinn krefst þess að stjórn SFV fá sameiginlegan fund með forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra þar sem farið verður yfir stöðu mála og útbúin markviss áætlun til að leysa rekstrarvanda hjúkrunarheimilanna til framtíðar.“