Alþingi hefur þegar veitt heimild til þeirra skuldbindinga sem aðild Íslands að Innviðafjárfestingabanka Asíu leiðir af sér, í fjáraukalögum fyrir síðasta ár. Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í Facebook-færslu. Tilefnið eru skrif Frosta Sigurjónssonar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar, í gærkvöldi en hann dró í efa að ráðherra ætti nokkurt erindi á stofnfund bankans þar sem Alþingi hefði ekki samþykkt að gerast stofnaðili að bankanum.
Frétt mbl.is: Segir Bjarna skorta samþykki Alþingis
Bjarni segir að fimmtungur skuldbindingarinnar komi til greiðslu í fimm jöfnum hlutum á fimm árum. Þar af hafi hlutur þessa árs verið greiddur í samræmi við heimild sem Alþingi veitti í fjáraukalögum. Bankinn fjármagni sig að öðru leiti á markaði og afar ólíklegt sé að afgangur stofnfjársins verði innkallaður.
„Um helmingur stofnaðila bankans tekur þátt í stofnfundinum með fyrirvara um endanlega staðfestingu heima fyrir en í samræmi við stofnsamning bankans er unnt að gerast stofnaðili allt til loka yfirstandandi árs. Formleg fullgilding Íslands á stofnsamningi bankans bíður afgreiðslu hefðbundinnar þingsályktunartillögu sem utanríkisráðherra hefur lagt fyrir Alþingi með samþykki þingflokka beggja stjórnarflokkanna,“ segir Bjarni á Facebook.
Þess ber að geta að athugasemdir Frosta lúta ekki eingöngu að fjármögnun heldur einnig að ákveðnum undanþágum.
„Samþykktir bankans krefjast nefnilega undanþágu bankans og starfsmanna hans frá sköttum, undanþágu frá fjármálaeftirliti og í raun verður þessi banki hafinn yfir lög og reglur Íslands. Slík fríðindi getur enginn samþykkt án heimildar Alþingis,“ sagði Frosti á Facebook í gær.
Tilefni skrifa hans var, sem fyrr segir, ferð fjármálaráðherra til Kína.