Dægurmenningin slæðist í dómsal

Tungutak og frasar úr dægurmenningu dreifa sér jafnan um allt …
Tungutak og frasar úr dægurmenningu dreifa sér jafnan um allt samfélagið, líka inn í dómskerfið.

Dómskerfið er eðli málsins samkvæmt að jafnaði nokkuð íhaldssamt þar sem breytingar taka tíma og tískan gengur í hægari sveiflum en gengur og gerist í fatabúðum H&M. Margir telja þetta vera grundvöll þess að réttarkerfið starfi eðlilega. Hér skal látið vera að dæma um það, en þó er víst að tískustraumar og dægurmenning koma að lokum inn í dómskerfið eins og annan vettvang þjóðlífsins.

Árið 2007 var einn af ástsælli sjónvarpsþáttum síðustu ára sýndur hér á landi, en það er gamanþátturinn Næturvaktin. Þar fara meðal annars Jón Gnarr og Pétur Jóhann Sigfússon með aðalhlutverk, en Pétur Jóhann leikur „starfsmann á plani“ sem lætur Georg Bjarnfreðarson ganga yfir sig.

Þó hugtakið „starfsmaður á plani“ hafi lengi verið notuð hér á landi er ljóst að með sýningu þáttanna varð sprenging í notkun þessarar lýsingar á óbreyttu starfsfólki á vinnustöðum. Mörg önnur hugtök og setningar sem komu fram í þáttunum sem urðu lífsseigar meðal landans, en þetta tiltekna hugtak hefur þó notið talsverðra vinsælda í dómsal síðustu árin.

Þannig hefur ítrekað verið vísað til almennra starfsmanna í verðbréfadeildum, sem ekki voru yfirmenn, sem „starfsmanna á plani“ í nokkrum réttarhöldum undanfarin ár. Í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings á fyrri hluta síðasta árs var meðal annars haft eftir einum af sakborningunum:  „Við erum bara starfs­menn á plani og við erum bara í okk­ar eig­in boxi hérna.”

Þá nefndi saksóknari í markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans í dag í Hæstarétti að ákveðnir starfsmenn hafi verið starfsmenn á plani og að dómurum bæri að horfa til þess varðandi refsingu. Verjandi eins þeirra sem saksóknari átti við ítrekaði svo mennirnir tveir hefðu einmitt verið „starfsmenn á plani.“

Það er því ljóst að tungutak dægurmenningarinnar er hægt og bítandi að slæðast inn í dómskerfið, þótt þeir sem séu leiðandi í tískustraumum tungumálsins séu væntanlega löngu hættir að nota þetta hugtak.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert