„Hélt ekki að fólk gæti látið svona út úr sér“

Hafdís Huld Þrastardóttir.
Hafdís Huld Þrastardóttir. Eggert Jóhannesson

„Það var svolítill skellur. Ég hélt ekki að fólk gæti látið svona út úr sér um einhvern sem var bara að vinna vinnuna sína. Ég var ekki einu sinni á Íslandi og manngerð sem er frekar hlédræg þótt ég sé það kannski ekki á sviði,“ segir tónlistarkonan Hafdís Huld Þrastardóttir.

Eftir að Hafdís Huld lauk námi í tónsmíðum og söng í London London Central Contemporary Music árið 2006, með hæstu mögulegu einkunn í söng og tónsmíðum, hóf hún sólóferil og hefur gefið út þrjár plötur í Bretlandi sem hafa fengið 4-5 stjörnu dóma erlendis en Hafdís Huld hefur einnig samið mikið fyrir erlendan markað; auglýsingar, sjónvarp og fyrir aðra tónlistarmenn. Fyrsta sólóplata Hafdísar Huldar, Dirty Paper Cup hlaut meðal annars Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2007. 

Þegar næsta plata kom út árið 2009, Synchonised Swimmer snérist umræðan hérlendis mikið um útlit Hafdísar Huldar á plötuumslaginu og tónlistarkonan fór ekki varhluta af því tali.  

„Ég hafði alltaf verið með brúnt sítt hár en þarna vildi svo til að ég var nýbúin að leika í sjónvarpsauglýsingu á Spáni fyrir Mercedes Benz. Ég hef stundum tekið að mér módelstörf - svona þegar það kemur ekki að sök að vera bara 155 cm á hæð!
En þeir höfðu beðið mig um að lita hárið á mér alveg hvítt fyrir auglýsinguna. Ég hugsaði með mér að ég myndi eflaust líta út eins og diskóbarbí en svo vandist ég því bara. Þegar við vorum að taka myndina fyrir plötuna var ég með þetta ljósa hár og hugsaði bara með mér að já, já, ég hefði þetta bara svona án þess að vera mikið að spá í það.“
Margir tóku þessu þannig að Hafdís Huld hefði farið í útpælda markaðstengda umbyltingu í útliti.

„Fólk leyfði sér að vera ákaflega óvægið - tónlistin sjálf varð engan veginn fókusinn, þrátt fyrir að hún væri algjörlega beint framhald af því sem ég hafði verið að gera.“

Hafdís Huld segir að á svipuðum tíma hafi henni verið bent á umræðu heima fyrir á spjallþráðum á internetinu þar sem fólk tjáði sig nafnlaust um hana en Hafdís Huld greindi frá því neteinelti í Kastljósi fyrir um tveimur árum.

„Ég man líka eftir umræðum í Fréttablaðinu um plötuumslög á þessum tíma þar sem bestu og verstu plötuumslög ársins voru valin, þar á meðal mitt, og það var eiginlega skelfilegt að lesa það sem fólk leyfði sér að segja.“

Í umfjöllun Fréttablaðsins birtust ummæli sem ekki var hægt að rekja beint til viðmælenda blaðsins og voru því í raun nafnlaus. Hafdís Huld var í Fréttablaðinu kölluð „gervikrútt“. „Frá helvíti“. Hún væri á myndinni eins og aðþrengd eiginkona „sem er alltaf að reyna að vera MILF, en býr svo í úthverfi með fimm börn og mann sem heldur framhjá. Og drekkur í laumi.“ (innsk. Þess má geta að MILF útleggst sem „Mother I'd like to fuck“ og er tungutak sem á rætur sínar í klámi.)
„Fólk hafði jafnvel ekki hlustað á plötuna sem fékk skínandi dóma úti en það virtist ekki skipta máli.“

Hafdís Huld á um þessar mundir 20 ára starfsafmæli og vinnur nú að fjórðu sólóplötu sinni sem er væntanleg í haust en veikindi dóttur hennar í 2 og 1/2 ár ollu umskipti á lífi hennar þannig að fresta þurfti plötunni um 18 mánuði og allt tónleikahald fór á ís. Árið áður en dóttir hennar fæddist spilaði Hafdís á 150 tónleikum en árið eftir voru tónleikarnir fernir. Nú hefur Arabella notið góðrar heilsu í hálft ár

„Ég man að ég talaði við umboðsmanninn minn og var þá að aflýsa Glastonbury og Big Chill og sagði að allt það skipti engu máli í samanburði við það sem ég var að díla við. Ég vissi ekki einu sinni hvað var að hrjá barnið og við óttuðumst það versta.“ Þegar dóttirin gat farið að tjá sig kom í ljós hvað hafði ollið gráti upp í 18 klukkustundir á sólarhring allan þennan tíma en hún er með sjaldgæfa taugaröskun sem veldur ofurnæmni. Arabella skynjar hita, kulda, birtu og hávaða margfalt. Í dag kann fjölskyldan að lifa með því en mikilvægt er að umhverfi hennar sé rólegt. Þrátt fyrir veikindin náði Hafdís Huld og unnusti hennar Alisdair Wright að gera þriðju sólóplötuna Home. Home fékk prýðisdóma í blöðum á borð við Sunday Times og Folk Radio UK valdi hana plötu mánaðarins.

Er ekki sjaldgæft þegar tónlistarmenn ganga í gegnum tíma þar sem þeir eiga erfitt með að sinna tónlist sinni að þeir nái að halda samningi sínum ytra?
„Jú, líklega, en ég passaði mig að reyna að semja fyrir aðra þegar ég gat. Þegar Arabella átti góða klukkutíma gerði ég það og hélt þannig höfundarréttarsamningi mínum við Bucks Music Publishing. Slíkir samningar snúast um fyrirframgreiðslur fyrir tónlistina sem þú semur.“ Þess má geta að maðurinn sem hálf heimsbyggðin syrgir, David Bowie, var með sinn höfundarréttarsamning á sama stað og Hafdís Huld.


„Ef maður semur ekki neitt endurnýja þeir ekki samninginn við þig. Til að halda slíkum samningi dugar oft að semja fyrir sjálfan sig en þar sem ég var ekki að gera það að ráði hjálpaði það mikið að semja lög fyrir aðra. Meðal verkefna sem ég hef unnið fyrir Bucks er útsetning og flutningur á titillagi jólamyndar BBC með Stephen Fry í aðalhlutverki, tónlist fyrir alþjóðlegar sjónvarpsauglýsingar og popplög fyrir aðra listamenn.“

Í viðtali sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina segir Hafdís Huld frá ferlinum, árunum með GusGus og lífinu og tilverunni. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert