Í haust bjó Tryggvi Hansen um sig í rjóðri á útmörkum borgarinnar, reisti sér tjald og sagði skilið við lífsmynstur íslensks samfélags. Síðan eru liðnir nokkrir mánuðir og þrátt fyrir frost og illviðri er engan bilbug á honum að finna. Einhver myndi kalla hann firrtan en hann segir það öfugt.
mbl.is kom við hjá honum í tvígang í vikunni og ræddi við hann um tjaldvistina og skoðanir hans á íslensku samfélagi en þær eru sterkar. „Það eru allir í þessu miðstéttardópi,“ segir Tryggvi og á við að neyslumynstur og væntingar fólks til lífsgæða séu að sliga það. Nútímalifnaðarhættir séu bæði ósjálfbærir og óheilbrigðir.
Tryggvi, sem starfaði lengi sem torfhleðslumaður, hefur mikinn áhuga á íslenskri sögu og sögu mannkyns og hann telur að sú heimsmynd sem við þekkjum eigi sér uppruna í táknmyndum trúarbragða og goðafræði. Þar sem siðmenningin, sem hann lítur síður en svo á sem jákvætt fyrirbæri, hafi haft yfirhöndina gegn náttúrufólki og lifnaðarháttum hirðingja.
Sýn hans er að fólk flytji aftur í lítil þorp þar sem 100 manns myndu lifa á gæðum náttúrunnar. Þannig væri hægt að endurheimta heilbrigði líkama og sála.
Ýmislegt hefur gengið á í veðrinu eins og landsmenn hafa fundið fyrir á undanförnum vikum en fáir líklega af jafnmikilli nálægð og Tryggvi. Indíánatjaldið gaf undan og tók að leka, Suðaustan- og Austanáttin láta ekki að sér hæða. Því þurfti hann að færa það til og nú hefur hann skjól frá trjánum.
Kuldinn hefur líka bitið í vetur en Tryggvi segir að í -17° gráðum hafi hann þó náð að verma tjaldið með eldstæði sem hann hefur komið þar fyrir og þá klæðir hann sig í mörg lög af hlýjum flíkum.