„Ég sagði ekki að Hagar hefðu samið þetta frumvarp. Ég sagði að ég hafi rekist á þingmann Sjálfstæðisflokksins í Kringlunni í gær og að hann hafi komið með þá kenningu að frumvarpið hafi verið samið af Högum,“ segir Kári Stefánsson vegna yfirlýsingar Finns Árnasonar um ummæli hans í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
„Ég sagði í þættinum að mér fyndist það ólíklegt og að ég tæki alls ekki undir þessa kenningu enda hef ég engar forsendur til að hafa slíka skoðun,“ bætir Kári við.
Sjá frétt mbl.is: Sömdu Hagar frumvarpið?
Aðspurður hvort honum finnist frásögn hans af kenningu þingmannsins ósanngjörn eða ósönn segir Kári:
„Ég sagði einfaldlega við Vilhjálm þar sem satt er, að kollegi hans hafi sagt mér að þetta væri skrifað af Högum. Ég sagði við þennan ágæta pilt að mér fyndist það ólíklegt enda kom fram í máli Vilhjálms á eftir að þetta væri ein af þeim röksemdum sem eru notaðar gegn frumvarpinu og mikilvægt að taka þá röksemd af borðinu því hún á ekki við.“
Sjá frétt mbl.is: Ummæli Kára „ómakleg og ósönn“
„Þannig að það sem Finnur er að mótmæla sagði ég aldrei. Samkvæmt minni skoðun þá er þetta heldur illa hugsuð yfirlýsing hjá honum. Það er aldrei óskynsamlegt að vita svolítið hvað maður er að tala um, jafnvel þó maður reki stóra verslun.“