Útlendingastofnun veitti 82 einstaklingum hæli eða aðra vernd á Íslandi í fyrra. Þar af voru Sýrlendingar fjölmennastir eða sautján talsins. Samtals var fólki af 26 þjóðernum veitt vernd á árinu. Fjölmennastir meðal þeirra sem sóttu um hæli á árinu voru Albanar.
Umsóknir um vernd á Íslandi voru tvöfalt fleiri árið 2015 en síðustu tvö ár á undan. Aldrei áður hafa jafn margir sótt um vernd á Íslandi á einu ári, segir í frétt á vef Útlendingastofnunar frá því á föstudag.
Samkvæmt tölum Útlendingastofurnar er þetta svipuð þróun og í nágrannalöndunum. Í Finnlandi stefndi í að fjölgunin á árinu yrði tíföld í samanburði við árið á undan miðað við tölur til 30.11. 2015.
Í Noregi sóttu nær þrisvar sinnum fleiri um vernd árið 2015 en 2014 og í Svíþjóð, sem hefur tekið við flestum flóttamönnum af öllum Evrópulöndum miðað við íbúatölu, var fjöldi umsækjenda um vernd tvöfalt meiri í ár en á síðasta ári.
Í Þýskalandi fjölgaði umsóknum um hæli úr rúmum 202 þúsundum í rúm 476 þúsund milli áranna 2014 og 2015. Yfirvöld í Þýskalandi gera hins vegar ráð fyrir því að allt að ein milljón manna hafi komið til Þýskalands í leit að hæli á árinu en aðeins hluti þeirra hefur getað lagt inn umsókn um hæli vegna álags á yfirvöld útlendingamála í landinu. Af Norðurlöndunum varð minnst fjölgun umsókna um vernd í Danmörku milli ára eða um 25%.
Stærsti þjóðernishópurinn sem sótti um vernd á Íslandi árið 2015 kom frá Albaníu eða um 30% allra hælisleitenda og samanlagt komu 42% umsókna frá einstaklingum frá löndum Balkanskagans, Albaníu, Kósóvó og Makedóníu. Í öðru, þriðja og fimmta sæti voru Sýrlendingar, Írakar og Afganar.
„Samsetning umsækjenda um vernd á Íslandi með tilliti til þjóðernis er mjög frábrugðin samsetningunni í öðrum Evrópuríkjum en þar eru einstaklingar frá stríðshrjáðum ríkjum eins og Sýrlandi, Írak, Erítreu og Afganistan fjölmennastir. Aðstæður meirihluta umsækjenda sem hingað koma eru þar af leiðandi nokkuð frábrugðnar því sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar,“ segir í frétt Útlendingastofnunar.
Árið 2015 fékkst niðurstaða í 323 mál sem stofnunin hafði til afgreiðslu. 82 umsóknir voru ekki teknar til efnislegrar meðferðar vegna þess að umsækjendur höfðu þegar fengið dvalarleyfi í öðru landi (32) eða mál þeirra voru til meðferðar í öðru ríki (50) og 47 umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka eða hurfu.
Af þeim 194 umsóknum sem teknar voru til efnislegrar meðferðar var veitt vernd í 82 tilvikum, þar af fengu 66 einstaklingar viðurkennda stöðu sína sem flóttamenn og 16 einstaklingar fengu dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. 112 umsækjendum var synjað um vernd og var veitingarhlutfallið árið 2015 því 42%.
Fjölmennasti þjóðernishópurinn sem fékk vernd á Íslandi árið 2015 voru Sýrlendingar en þeir voru 17 talsins, ekki eru meðtaldir þeir kvótaflóttamenn sem boðið var til landsins af stjórnvöldum. Því næst voru Rússar (8), Íranar (6), Nígeríumenn (6) og Úkraínumenn (6). Allt í allt var einstaklingum af 26 þjóðernum veitt vernd á Íslandi á árinu.
Algengasta þjóðerni þeirra sem var synjað um vernd á árinu voru Albanar, 54 einstaklingar. Á eftir þeim komu Makedóníumenn (20) og Kósóvóbúar (5). Allt í allt var einstaklingum af 21 þjóðerni synjað um vernd á Íslandi á árinu.
Þessi niðurstaða er í samræmi við niðurstöður mála í öðrum Evrópuríkjum en samanlagt veitingarhlutfall Sýrlendinga í aðildarríkjum Evrópusambandsins á þriðja ársfjórðungi 2015 var 98% en aðeins 1% fyrir Albana.