Allt tilbúið fyrir komu flóttamanna

Ung sýrlensk stúlka tekur til hendinni í flóttamannabúðum Sameinuðu þjóðanna …
Ung sýrlensk stúlka tekur til hendinni í flóttamannabúðum Sameinuðu þjóðanna í Líbanon á nýársdag. AFP

35 sýrlenskir flóttamenn koma til Íslands síðdegis á morgun. 23 þeirra fara til Akureyrar en 12 til Kópavogs. Fólkið kemur frá Líbanon þar sem það hefur búið í flóttamannabúðum, sumir í mörg ár.

Fjórar fjölskyldur koma til Akureyrar með flugi annað kvöld og að sögn Eiríks Björns Björgvinssonar, bæjarstjóra á Akureyri, er bærinn eins tilbúinn og hægt er undir komu fólksins.

„Við höfum haft góðan tíma til að undirbúa komu þeirra eins vel og við mögulega getum. Nú bíðum við bara spennt eftir að fá að taka á móti þeim,“ segir Eiríkur í samtali við mbl.is.

Að sögn Eiríks er fólkið á öllum aldri, allt frá börnum upp í eldra fólk. „Þetta eru fjórar fjölskyldur, þar af ein verulega stór níu manna fjölskylda.“

Eins og fyrr segir eru börn innan hópsins og munu þau fara í skóla þegar þau treysta sér til. „Við vinnum það bara með fjölskyldunum þegar þau koma,“ segir Eiríkur. Börnin munu dreifa sér eitthvað í skóla bæjarins og eru tvö er þrjú þeirra á framhaldsskólaaldri.

Aðspurður hvort að íbúðirnar sem fólkið fær séu tilbúnar með húsgögnum og öllu tilheyrandi svarar Eiríkur því játandi. „Það er allt tilbúið. Svo munu sérstakar stuðningsfjölskyldur aðstoða fólkið áfram. Við þekkjum þetta verkefni mjög vel frá því að við tókum á móti flóttafólki árið 2003.“

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri segir allt tilbúið undir …
Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri segir allt tilbúið undir komu flóttamanna. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

Liggur ekkert á að byrja í skóla

Kópavogsbær mun eins og fyrr segir taka á móti tólf sýrlenskum flóttamönnum á morgun. Um er að ræða tvær sex manna fjölskyldur. Þriðja fjölskyldan er einnig væntanleg en ekki liggur fyrir hvenær nákvæmlega hún kemur.

Að sögn Sigríðar Bjargar Tómasdóttur, upplýsingafulltrúa hjá Kópavogsbæ fara fjölskyldurnar beint í sínar íbúðir í Kópavogi sem eru alveg tilbúnar með húsgögnum.

Börnin sem koma á morgun eru frá leikskólaaldri upp í framhaldsskóla og að sögn Sigríðar eru skólar bæjarins tilbúnir til að taka á móti þeim. Skólamál verða rædd við fólkið þegar þau eru komin og að sögn Sigríðar liggur ekkert á að börnin byrji, er það bara gert þegar þau eru tilbúin.

Fjölskyldurnar tvær munu búa nálægt hvor annarri en ekki í sama hverfi. Stutt verði þó á milli að sögn Sigríðar. 

Sýrlensku fjölskyldunnar verða í tveimur hverfum Kópavogsbæjar.
Sýrlensku fjölskyldunnar verða í tveimur hverfum Kópavogsbæjar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka