Úthlutun styrkja menningar- og ferðamálaráðs og útnefning Tónlistarhóps Reykjavíkurborgar fór fram á Kjarvalsstöðum í dag. Hæsta styrkinn hlaut Heimili kvikmyndanna - Bíó Paradís, eða 12,5 milljónir í ár og sama upphæð á næsta ári. Um er að ræða verkefnastyrki, styrki til almennrar liststarfsemi og langtímasamninga sem skiptast í samstarfssamninga og Borgarhátíðasjóð.
Nýlistasafnið fær 9,5 milljónir króna, þá koma RIFF og Hinsegin dagar með fimm milljónir hvor úr Borgarhátíðasjóði næstu þrjú árin. Kling og Bang hlýtur 4,5 milljónir króna, Reykjavík Dance Festival og leiklistarhátíðin Lókal hljóta 3 milljónir króna árlega hvor úr Borgarhátíðasjóði næstu þrjú árin og Samtök um danshús tvær milljónir til tveggja ára. Langtímasamningar eru með fyrirvara um samþykki borgarráðs og heimildir í fjárhagsáætlun hverju sinni.
Aðrir eru til að mynda til Reykjavík Fashion Festival 2016 (2 milljónir), Secret Solstice (1,5 milljón króna), Barnabókmenntahátíðinnar Mýrin (1,2 milljónir króna )og eina milljón hljóta Nýsköpunarsjóður tónlistar - Musica Nova, myndlistarhátíðin Sequences, kvikmyndahátíðin Stockfish, Tónleikaröð Jazzklúbbsins Múlinn, Norrænir músíkdagar í Reykjavík og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins sem jafnframt er útnefnd Tónlistarhópur Reykjavíkur 2016.