Sala áfengis í matvöruverslunum er ekki spurning um frelsi, ríkisrekstur eða ekki ríkisrekstur. Málið snýst aftur á móti um að koma í veg fyrir eitt versta heilsufarsvandamál ungs fólks sem er alkóhólismi og að koma í veg fyrir að freisting sé fyrir allra augum í öllum matvöruverslunum. Þetta var meðal þess sem Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í Íslandi í dag, en þar mætti hann Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara Sjálfstæðisflokksins.
Áslaug hefur verið ötul talskona þess að leyfa áfengi í búðum og sagði hún að það væri eðlilegt framfaramál, þótt það væri í raun ekki endilega forgangsmál. Sagði hún málið í dag vera útrætt og að best væri ef Alþingi myndi taka fyrir áfengisfrumvarpið og kjósa um það. Þar muni mismunandi skoðanir koma í ljós, en málið fá lýðræðislega niðurstöðu.
Kári sagði í þættinum að hann væri í raun ekkert á móti því að ríkið myndi losa sig við áfengisverslanir, en að það væri rangt að færa söluna úr sérverslunum yfir í matvöruverslanir. Sagðist hann vera þeirrar skoðunar að ekki eigi að bæta á þann fórnarkostnað sem fylgi áfengisneyslu og áfengissýki með því að bæta aðgengið.
Áslaug benti á að þetta væri svipaður áróður og í kringum umræðuna þegar leyfa átti bjórinn og litasjónvarpið, eða leyfa útvarpsútsendingar hjá öðrum en RÚV. „Fólk verður ekki galið að sjá áfengi í kringum sig,“ sagði Áslaug. Spurði þáttarstjórnandi þá Kára hvort þetta væru bara gamlir karlar með hræðsluáróður að tala gegn breytingum á áfengislögum. Fékk hann ekkert beint svar við þeirri spurningu.