Rúmlega 3,6 milljónir króna söfnuðust til Slysavarnafélagsins Landsbjargar í verkefninu „Gefum og gleðjum“ sem Olís stóð fyrir í desember. Fimm krónur af hverjum seldum eldsneytislítra hjá Olís og ÓB runnu til Landsbjargar dagana 29. og 30. desember að því er fram kemur í fréttatilkynningu um verkefnið.
„Það er mikilvægt að eiga góða styrktaraðila. Það kostar mikla fjármuni að halda úti öflugu slysavarna- og björgunarstarfi um land allt þrátt fyrir að allt starfið sé unnið í sjálfboðavinnu. Við erum þakklát fyrir þann góða stuðning sem Olís sýnir félaginu, bæði með þessari söfnun, sem og að vera einn af aðal styrktaraðilum þess,“ segir Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar.í fréttatilkynningunni.
Landsbjörg var ekki eina góða málefnið sem naut góðs af „Gefum og gleðjum“ því Styrktarfélag einhverfra barna, Mæðrastyrksnefnd, Neistinn, Styrktarfélag hjartveikra barna, og Geðhjálp hlutu einnig styrk í desember.
Alls söfnuðust tæplega 10 milljónir króna fyrir félögin í verkefninu.