Samkvæmt Skólapúlsinum, sem er könnun þar sem spurt er um virkni og líðan grunnskólanemenda, upplifir um fjórðungur þeirra streitu oft eða mjög oft.
Að sögn Berglindar Brynjólfsdóttur, sálfræðings á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, getur margt valdið streitu hjá börnum, t.d. of lítill svefn, mikil tölvunotkun og miklar kröfur til þeirra.
Hún segir nokkuð um að nemendur í 10. bekk upplifi streitu vegna þess að þau óttist að komast ekki inn í vinsælustu framhaldsskólana og standast þannig ekki væntingar sjálfra sín og annarra, að því er fram kemur í fréttaskýringu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.