Hefur ekki áhyggjur af Pírötum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Pírataflokkurinn er í aðalhlutverki í nýrri grein á vef fréttastofunnar Bloomberg og sú staðreynd að hann sé með mesta fylgið samkvæmt skoðanakönnunum þegar að aðeins er rúmt ár í næstu þingkosningar hér á landi.

Endurspeglist það í endanlegu kjörfylgi gætu Píratar staðið uppi með rúmlega þriðjung atkvæða.

Að mati Bloomberg gæti það  haft byltingakennd áhrif á Ísland sem er „aðeins nú að jafna sig eftir fall stærstu bankanna 2008.“

Sagt er frá því að helstu stefnumál Pírata á Íslandi séu beint lýðræði og slakari höfundaréttarlög. Þá vilja þau 35 klukkustunda vinnuviku og það að fjármunum og viðskiptaeiningum bankanna verði deilt jafnt. 

Í fréttinni er vitnað í Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sem segist ekki hafa áhyggjur af miklu fylgi Pírata. Aðspurður hvernig hann myndi bregðast við ef Píratar myndu sigra kosningarnar sagðist hann „íhuga að fara í felur þar til í næstu kosningum“ en sagðist þó vera að grínast.

Bent er á það að Píratar, rétt eins og í öðrum löndum Evrópu, græði á aukinni andúð fólks á hefðbundnum stjórnmálum. Einnig er vitnað í Birgittu Jónsdóttur, þingkonu og stofnanda Pírataflokksins á Íslandi, sem segir enga eina útskýringu fyrir vinsældum flokksins. „Fólk er augljóslega þreytt á því að vera lofað hvað sem er fyrir kosningar, aðeins til þess að sjá stjórnmálamenn hörfa frá því eftir á,“ sagði Birgitta.

Í ljósi skoðanakannanna, hafa Píratar beðið aðra flokka að láta þau vita fyrirfram hafi þau áhuga á að mynda samsteypustjórn með Pírötum. Að sögn Birgittu hafa sumir hlustað á þau.

„Við búumst ekki við því að næstu kosningar sýni sömu niðurstöðu og skoðanakannanirnar hafa gert. Það er of mikil bjartsýni. En stuðningurinn við okkur hefur neytt aðra flokka til frekari sjálfsskoðunar,“ sagði Birgitta.

Í frétt Bloomberg er bent á velgengni Pírata í löndum í Evrópu, Kanada og Ástralíu en enginn Pírataflokkur hefur náð eins miklum vinsældum og á Íslandi.

Í samtali við Bloomberg sagði Sigmundur Davíð að hreyfingar sem eru gegn ráðandi öflum hafi gengið vel í hinum vestræna heimi og nefnir Donald Trump í því samhengi. Bendir hann þó á að Ísland sé sérstakt að því leiti að þjóðin eigi erfitt með að treysta hefðbundnum stjórnmálamönnum og bönkunum eftir hrunið 2008.

Aðspurður hvernig Pírötum myndi ganga að leiða ríkisstjórn landsins sagði Sigmundur að hún myndi líklega leysast upp fljótlega.

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert