Hið opinbera fann upp kjarnorkusprengjuna

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta snýst um árangur,“ sagði Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Katrín bað ráðherrann um skýringu á þeim ummælum í viðtali við Viðskiptablaðið að opinbera kerfið væri ekki gott í að koma fram með nýjungar og væri raunar lélegt í þeim efnum.

Illugi benti á að árangri grunnskólabarna hér á landi í lestri hefði hrakað. Þriðjungur drengja gætu ekki lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla og 12% stúlkna. Ekki væri hægt að segja við foreldra þessara barna að staðan væri ásættanleg. Sagðist ráðherrann sjálfur ekki vera það. Þessi árangur væri ekki ásættanlegur og þar kæmi nýsköpun einnig við sögu.

Katrín sagði Illuga greinilega ósáttan við opinbera skólakerfið. Spurði hún hann hvað hann teldi skipta mestu máli þegar kæmi að nýsköpun. Rekstrarformið eða fagmennsku. Hvort hann vildi frekar sjá stóran hluta skólakerfisins einkarekið. Sagði hún nýsköpun gjarnan hafa verið samvinnuverkefni hins opinbera og einkaframtaksins. 

Illugi benti á að hið opinbera hefði meðal annars fundið upp kjarnorkusprengjuna þannig að það væri ekki allt gott sem þaðan kæmi. Hins vegar leiddi framtak einstaklinganna gjarnan til lausna. Kjarni málsins væri árangur og nýta þyrfti alla möguleika til þess að ná honum.

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert