Tekist var á um nýja aðgerðaráætlun í úrgangsmálum í borgarstjórn Reykjavíkur í dag. Fulltrúar minnihlutans gagnrýndu meðal annars dýrari og verri þjónustu og að kostnaður við áætlunina liggi ekki fyrir. Fulltrúi meirihlutans sagði hins vegar val í sorphirðumálum hvergi meira en í Reykjavík.
Reykjavíkurborg tók upp nýjungar í sorphirðumálum við áramótin. Nú er boðið upp á sérstaka spartunnu sem er valkvæð og tekur helmingi minna magn af sorpi, en sú hefðbundna gráa. Valkvæðar bláar og grænar tunnur eru nú hirtar oftar, en hin hefðbundna gráa tunna hirt sjaldnar. Samhliða þessu urðu nokkrar verðbreytingar fyrir sorphirðuna, en kostnaður við bláu tunnuna fór í 8.500 krónur á ári, græna tunnan í 8.400 krónur á ári, en sú gráa lækkaði lítillega í 21.300 krónur á ári. Kjósi íbúar aftur á móti spartunnuna lækkar kostnaður í 10.800 krónur árlega.
Tilgangurinn er sagður sá að auka flokkun sorps og endurvinnslu. Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, sagði meðal annars að stefnt væri að því að endurvinna 2.400 tonn af plastefnum á ári sem annars væru urðuð.
Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, benti á að sorphirðugjöld í borginni hefðu hækkað langt umfram allt annað undanfarin ár. Fækkun sorphirðu daga hafi orðið til þess að ruslatunnur yfirfylltust hjá fólki og rusl fyki um borgina.
Hjálmar sagðist hins vegar ekki kannast við það vandamál. Hann ferðaðist mikið um borgina gangandi og á hjóli. Taldi hann sig því sjá betur ástandið en fólk sem þeyttist um í bílum á 40 kílómetra hraða á klukkustund.
„Ég hef ekki séð það sem hann hefur séð,“ sagði Hjálmar.
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, var ósátt við að kostnaður fyrir borgina og borgarbúa við áætlunin lægi ekki fyrir. Hún gæti ekki samþykkt áætlunina án þess að vita hver kostnaðurinn væri.
Halldór Halldórsson, oddviti sjálfstæðismanna, sagði að gott að verið væri að auka flokkunar- og endurvinnslumöguleika. Spurningin væri hins vegar um kostnað og breytingar á sorphirðu þýddu hærri verðskrá og verri þjónustu.
Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sagði það hins vegar ekki standast að halda því fram að verð væri að hækka en þjónusta að skerðast. Kostnaður við gráu tunnurnar væri að lækka vegna þess að þjónustan fyrir þær væri að breytast.
Benti hún á að þeir sem söknuðu þess að sorp væri hirt á sjö daga fresti í stað fjórtán daga gætu þeir fengið sér aukatunnu og þeir hefðu það val. Væri sjö daga tíðni enn við lýði um alla borg og borgin rukkaði kostnaðinn við það væri sorphirðukerfi Reykjavíkurborgar það dýrasta og íbúar hefðu lítið val. Hvergi hafi íbúar hins vegar meira val en í Reykjavík í sorphirðumálum.
S. Björn Blöndal, borgarfulltrúi Bjartrar framtíðar, sagði að kapítalískir sjálfstæðismenn hlytu að vera sammála því að þeir sem þurfi að losa meira rusl greiði fyrir það og spurði hvort þeir vildu frekar jafnaðarkerfi þar sem þeir sem losuðu minna sorp borguðu jafnmikið og þeir sem losuðu meira.