Liggur ekkert á að selja bankann

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, var einn þeirra er steig í pontu á Alþingi í dag þegar óundirbúnar fyrirspurnir fóru þar fram. Beindi hann orðum sínum til forsætisráðherra og spurði eftirfarandi: „Hvers vegna liggur svona óskaplega á að selja hlut ríkisins í Landsbankanum?“

Að mati Helga er þessi asi óútskýrður. „Aftur á móti virðist margt benda til að ríkið gæti hagnast verulega á því að halda á hlutnum - bæði í formi vaxta og hækkandi verðs. Fórnarvextir þeir sem ríkið þarf að greiða til að halda á hlutnum eru smávægilegir í samanburði við þann mikla ávinning,“ sagði Helgi.

Er að hans mati vandséð hvernig hagsmunir skattgreiðenda og ríkisins geti verið tryggðir með því að selja Landsbankann nú.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hóf mál sitt á því að þakka fyrir ágæta fyrirspurn og bætti næst við:

„Stutta svarið er - það liggur ekkert á að selja bankann fyrr en menn eru ásáttir um að það sé æskilegt fyrir eigandann. Ég minni hins vegar á að til staðar hefur verið heimild frá síðasta kjörtímabili, þegar háttvirtur þingmaður var í stjórnarmeirihluta og, ef mig minnir rétt, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, til þess að selja hlut ríkisins í bankanum.“

Forsætisráðherra benti þingmanni því næst á að það væri Bankasýsla ríkisins, ekki þing eða ríkisstjórn, sem héldi utan um söluna. „Ég efast ekki um að Bankasýslan muni meta það hvenær og með hvaða hætti æskilegt kann að vera að selja hlut í bankanum.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert