Álversdeilan gæti smitað út frá sér

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ernir

Tilkynning forstjóra Rio Tinto Alcan um engar launahækkanir á þessu ári skapar víðtækar deilur og snýst í raun um grundvallaratriði í kjaraviðræðum hér á landi. „Þessu fyrirtæki á ekki að takast að gera grundvallarbreytingar á kjaraviðræðum hér á landi,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í samtali við mbl.is.

Gylfi segir að málið hafi meðal annars verið rætt á miðstjórnarfundi sambandsins í gær og að menn hafi verið ósáttir með þetta útspil fyrirtækisins. Segir hann skipulag vinnumarkaðarins hér á landi sé þannig að kjaraviðræður séu í höndum stéttarfélaga og samtaka vinnuveitenda. Með þessari yfirlýsingu hafi forstjóri alþjóðlegs fyrirtækis aftur á móti stigið áður óþekkt skref í slíkum málum hér á landi.

„Það er óheyrt að forstjóri gefi út að laun hækki ekki neitt,“ segir Gylfi og bætir við að Samtök atvinnulífsins geti ekki fyrt sig ábyrgð á þessu máli meðan leitað sé lausna með breytingu á fyrirkomulagi á almennum vinnumarkaði, með svokallað Salek-samkomulag.

Gylfi segir yfirlýsinguna frá forstjóra Rio Tinto Alcan hafa neikvæð áhrif á núverandi kjaraviðræður starfsmanna álversins og segir hann að ef ekki finnist lausn í bráð muni ASÍ horfa til þess að stéttarfélög taki þetta mál upp við atvinnulífið í heild, ekki bara við forsvarsmenn álversins.

Hann tekur þó fram að til að geta almennilega fylgt þessu máli eftir þurfi félög starfsmanna í álverinu að standa í félagslegum aðgerðum svo önnur félög geti veitt þeim stuðning. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert