„Fjármögnunin er ekkert vandamál“

„Fjármögnunin er ekkert vandamál, bara alls ekkert vandamál,“ sagði Jón Finnbogason, forstöðumaður skuldabréfa hjá Stefni, á fundi Félags atvinnurekenda í morgun þar sem rætt var um nýjan Landspítala við Hringbraut. Þar ræddi Jón einkum um fjármögnun hátæknisjúkrahúss. Benti hann á að mikil spurn væri eftir ríkisskuldabréfum, fjármagnsþörfinni vegna nýs Landspítala væri dreift fram til ársins 2023 og staða ríkissjóðs væri að styrkjast mjög. Þannig væri fjármögnun verkefnisins engin fyrirstaða. Jón sagði það eina sem vantaði væri að endanleg ákvörðun væri tekin í málinu.

Jón minnti á að fyrir lægi að um opinbera framkvæmd yrði að ræða og allt tal um einkaframkvæmd eða eignatryggða fjármögnun væri því út af borðinu. Minnti hann einnig á að samþykkt hefði verið þingsályktun á Alþingi 2014 af með 56 atkvæðum og engum mótatkvæðum að taka fyrstu skref að uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Enginn ágreiningur hefði með öðrum orðum verið um málið. Þar hefði verið settur sá fyrirvari að fjármögnun væri tryggð. Ræddi hann síðan um stöðu ríkissjóðs sem væri mjög skuldsettur. En hins vegar hefðu skuldir verið greiddar niður á síðasta ári um 150 milljarða króna sem væru samkvæmt kostnaðaráætlun þrír nýir Landspítalar. 

„Þetta hefur þau áhrif að svigrúm til aðgerða í framtíðinni verður allt annað vegna þess að vaxtagjöldin lækka,“ sagði Jón. Stefnt væri að því að greiða niður 194 milljarða króna af skuldum ríkissjóðs á þessu ári. Tækist það hefði skuldastaða ríkissjóðs stórbatnað á innan við tveimur árum. Ekki væri tekið inn í myndina í þeim efnum fjármagn sem til stæði að ríkið fengi frá þrotabúum föllnu bankanna. Þannig með væri gert ráð fyrir að greiddar yrðu niður skuldir upp á 344 milljarða króna. Markmiðið væri að skuldastaða ríkisins væri komin í 50% af vergri landsframleiðslu árið 2019.

Jón sagði að þetta væri stóra málið þegar kæmi að fjármögnun nýs Landspítala. Ekki hvort framkvæmdin kostaði 50 eða 60 milljarða. Vísaði hann til þess að opinberar framkvæmdir hefðu ákveðna tilhneigingu til þess að fara fram úr kostnaðaráætlunum. Það væri þó alls ekki alltaf raunin. Ræddi hann ennfremur um það hvort fjármögnun væri fyrir hendi á lánamörkuðum. Ef horft væri til skuldabréfafjármögnunar í erlendri mynt erlendis þá hefðu hérlendir aðilar sótt sér 240 milljarða króna með útgáfu skuldabréfa síðustu sex mánuði og þar væri ríkissjóður fremstur á meðal jafningja með 64 milljarða. „Þannig að ef einhver er í vafa, er eitthvað vesen að ná í þetta fé þá er það bara akkúrat ekkert vandamál.“

Jón sagði að hugsanlega væri verið að draga töku endanlegrar ákvörðunar um byggingu nýs Landspítala í ljósi þess að það fæli í sér skuldbindingu sem taka yrði tillit til í ríkisreikningi. „Það getur vel verið að menn séu í einhverjum loftfimleikum með að draga ákvörðunina en mér finnst hún blasa við. Og þá er kannski bara lokaspurningin, hún er: Hvenær á að byrja? En það er jú bara pólitísk spurning. Það er að minnsta kosti ekki spurning um aðgengi að fjármagni eða hvort það verður hægt að fjármagna þetta. Hvort heldur sem litið er til lánsfjármögnunar eða bara með afkomu ríkissjóðs.“

Frá fundinum í morgun.
Frá fundinum í morgun. mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert