Skortur hjá börnum eykst á Íslandi

Könnun UNICEF leiðir í ljós að hlutfallslega fleiri börn líða …
Könnun UNICEF leiðir í ljós að hlutfallslega fleiri börn líða nú skort á Íslandi en áður.

Ellefta hvert barn á Íslandi líður efnislegan skort og hefur hlutfallið rúmlega tvöfaldast á fimm árum samkvæmt niðurstöðum skýrslu UNICEF á Íslandi. Atvinnuþátttaka foreldra er algengasti áhrifavaldurinn en skorturinn er helst á sviði húsnæðis. Samtökin telja niðurstöðurnar áhyggjuefni.

Skýrslan ber heitið „Börn sem líða efnislegan skort“ og var kynnt í morgun. Helsta niðurstaða hennar er að hlutfall barna 1-15 ára sem líða skort á Íslandi var 9,1% árið 2014 en hlutfallið var 4% árið 2009. Ennfremur hefur hlutfall barna sem líða verulegan skort þrefaldast á sama tímabili. Hlutfallið er nú 2,4%. Gera má ráð fyrir að rúmlega 6.100 börn líði efnislegan skort á Íslandi en hátt í 1.600 verulega skort.

Börn sem eiga foreldra sem eru í minna en 50% starfi eða eru atvinnulausir eru líklegust til þess að líða skort. Meira en fjórða hvert barn í þessum hópi líður skort samkvæmt skilgreiningu UNICEF. Þar á eftir koma börn foreldra sem eru yngri en þrítugir og síðan börn foreldra sem eru á leigumarkaði.

Tæplega 9.000 búa við húsnæðisskort

Skilgreiningin á skorti miðast við lífskjararannsókn Evrópusambandsins. Talað er um að börn líði skort ef þau skortir tvö eða fleiri atriði af lista sem inniheldur meðal annars húsnæði, félagslíf, klæðnað, næringu og aðgengi að upplýsingum. Talað er um verulegan skort ef þau skortir þrennt eða fleira.

Skortur barna á Íslandi virðist hafa dýpkað. Árið 2009 skorti ekkert íslenskt barn fleiri en fjögur atriði á listanum. Fimm árum síðar skorti þau hins vegar allt að sjö atriði. Það var Hagstofa Íslands sem greindi svör úr lífskjararannsókn ESB samkvæmt aðferðafræði UNICEF.

Húsnæði er það svið sem íslensk börn líða helst skort á en tæplega 9.000 börn búa við slíkan skort samkvæmt rannsókninni. Algengasta ástæðan er þröngbýli en einnig að næg dagsbirta komi ekki inn um glugga húsnæðisins. Meira en fjórðungur barna sem eiga foreldra sem vinna hálft starf eða minna eða eru atvinnulausir býr við húsnæðisskort. Það sama á við um börn einstæðra foreldra.

Þar á eftir kemur félagslíf en það er meðal annars mælt með því hvort að börn geti haldið upp á afmæli eða önnur tímamót og hvort þau geti boðið öðrum börnum heim til sín að borða eða leika sér. Könnunin leiðir í ljós að eitt af hverjum tuttugu börnum getur ekki gert það.

Þegar aðeins er litið til þeirra barna sem líða verulegan skort fer hlutfallið upp í 48,6%. Þau börn eru 18 sinnum líklegri til að búa við skort á félagslífi. Börn sem líða verulegan skort búa einnig við skort á klæðnaði og eru 37 sinnum líklegri en önnur börn til þess. Það sama er uppi á teningnum á sviði afþreyingar.

Staðan hvað varðar næringu og aðgengi að upplýsingum er það eina sem batnar á milli kannana.

Niðurstöðurnar áhyggjuefni

Ekki þarf að koma á óvart að staða foreldra skiptir sköpum fyrir efnislegan aðbúnað barna. Þannig mælist mikil munur á skorti á meðal barna eftir menntun og tekjum foreldra. Eins reyndist mikill munur eftir því hvort að foreldrar búa í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði. Skortur barna sem búa í leiguhúsnæði hefur þannig þrefaldast frá því í síðustu könnun.

Staða barna sem eiga foreldra sem fæddir eru erlendis hefur hins vegar batnað samkvæmt könnuninni. Hlutfallslega færri þeirra búa nú við skort en börn foreldra sem fæddir eru á Íslandi.

Í áliti UNICEF á niðurstöðum skýrslunnar segir að þær séu áhyggjuefni. Aðeins liggi hins vegar fyrir gögn um skort barna frá árunum 2009 og 2014. Því sé ekki hægt að alhæfa um þróun skorts hjá börnum.

„Við vitum ekki hvert við erum að fara eða nákvæmlega hvaðan við komum. Við vitum einungis að það hlutfall barna á Íslandi sem býr við efnislegan skort hefur rúmlega tvöfaldast á tímabilinu. Það er umhugsunarefni og nokkuð sem við sem samfélag verðum að leggjast yfir,“ segir í skýrslunni.

Úr skýrslu UNICEF á Íslandi
Úr skýrslu UNICEF á Íslandi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert