Veitir ekki af að fá fólk til landsins

Magnús Þorkelsson, skólameistari Flensborgarskólans.
Magnús Þorkelsson, skólameistari Flensborgarskólans. Ásdís Ásgeirsdóttir

Veitir okkur nokkuð af að fá fólk til landsins? Ef Íslendingar vilja ekki búa hér – hvers vegna ekki að fagna vel menntuðu erlendu fólki?“ Að þessu spyr Magnús Þorkelsson, skólameistari Flensborgarskólans í færslu á Facebook, en hann færsluna skrifar hann í kjölfar frétta sem hann fékk um að vísa ætti úr landi fjölskyldu frá Albaníu, en ein úr fjölskyldunni er nemandi í Flensborg.

Ég set eftirfarandi texta fram - ekki sem embættismaður heldur sem mannvera,“ segir Magnús í byrjun færslunnar og rifjar svo upp að Íslendingar séu að upplagi flóttamenn og að landsmenn ættu að líta til róta sinna í þeirri umræðu sem sé nú uppi um flóttamenn.

Minnist hann fyrst á þegar forfeður landsmanna komu frá Noregi með viðkomu á Írlandi og Skotlandi. Áfram héldu sumir til Grænlands, en síðan hafa menn reynt að flýja þetta land ítrekað þegar illa hefur árað. Þannig séu Vesturferðirnar væntanlega frægastar, en einnig hafi margt fólk flutt á síðustu árum í burtu. 

Nýlega var fjallað um að fjölgun albanskra flóttamanna hér á landi væri um 100%. Magnús segir þessa „fordæmalausu“ fjölgun þó aðeins vera úr 176 manns upp í 354. Þetta sé aðeins eitt prómill af þjóðinni og að samanlagður fjöldi Albana sem hingað hafa komið frá 2009 nái ekki 0,3% af heildarfjölda þjóðarinnar. 

Segir Magnús Útlendingastofnun ekki vera í öfundsverðri stöðu þessa dagana og jafnvel framfylgja lögum sem þau komu ekki nálægt því að semja. Þar sé þó pottur brotinn hvað varðar alla „hugtakaflóruna“ sem sé notuð í sambandi við flóttamenn.

Gerir hann lítið úr þeim röksemdum að fólkið hafi komið hingað fyrir misskilning og að mjög gott sé fyrir það að búa á þeim stað sem það komi frá. Segir hann margt vel vinnufært og skapandi fólk vera í þessum hóp og að það myndi gefa íslensku samfélagi mikið.

Magnús rifjar upp að á þessari öld hafi mun fleiri Íslendingar flutt úr landi en til landsins að nýju. Þar muni um 10 þúsund manns. Frá 1961 hafi 30 þúsund Íslendingar flutt héðan, en erlent fólk komið til landsins. Spyr hann hvort þjóðinni veiti nokkuð af því að fá fleiri aðflutta fyrst Íslendingar vilji ekki búa hér. „Eða stendur okkur og menningu okkar ógn af einu prómilli íbúa landsins? Fólki sem vill búa hér, menntast hér og leggja okkur lið?“ spyr hann að lokum.

Var að fá þær fréttir að vísa ætti úr landi fjölskyldu frá Albaníu. Ein úr þeirri fjölskyldu er nemandi okkar í...

Posted by Magnús Þorkelsson on Wednesday, 20 January 2016
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert