„Mér finnst þetta vera fáránleg sóun,“ sagði Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, á Alþingi í dag. Þar vísaði hún til þess að árlega væri fullgóðum bjór hellt niður vegna þess að samkvæmt reglugerð á vegum fjármálaráðuneytisins væri óheimilt að selja til dæmis jólabjór og páskabjór nema á ákveðnum tímum.
„Þetta er árstíðarbundin vara þannig að ég sem neytandi, sem væri alveg sama þó ég væri að drekka einhvern jólabjór í dag og vildi frekar vilja það en að honum væri hellt niður, ég hef í rauninni ekkert möguleika á því vegna þess að það má ekki selja hann,“ sagði Brynhildur og beindi þeirri fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra hvort hann færi ekki í það að breyta þessum reglum. Bjarni sagði málið enn eitt dæmið um það hversu langt oft hefði verið gengið til þess að handstýra þjóðfélaginu.
„Það skal ekki keyptur páskabjór nema það séu páskar og það skal ekki drukkinn jólabjór nema það séu jól framundan og ekki of lengi eftir að jólahátíðinni lýkur. Að sjálfsögðu eru þetta reglur sem ætti að taka til endurskoðunar. Sem og hvar megi selja bjórinn. Og það er alveg rétt að það er mikil sóun í því fólgin þegar það er verið að taka vöru, sem er að öllu leyti í lagi með og hella henni niður vegna þess að merkingarnar stangast eitthvað á við dagatalið. Þetta er auðvitað sóun, það er alveg rétt,“ sagði ráðherrann.
„Þetta er stórmál. Matarsóun er alvarlegt mál. Það er talað um að einn þriðji af þeim matvælum sem eru framleidd í heiminum endi með einum eða öðrum hætti sem úrgangur, frá akrinum og allt þar til búið er að framleiða bjórinn og honum er hellt niður. Þannig að við eigum að bregðast við alls staðar þar sem við getum til að minnka matarsóun,“ sagði Brynhildur ennfremur.
„Mér finnst þetta bara ágætisdæmi, eins og ég rakti í fyrra svari mínu, um hversu langt menn hafa viljað ganga í að handstýra þjóðfélaginu. Ég held að það megi vinda ofan af því á fleiri sviðum en þessu,“ sagði Bjarni.