„Vegna armlengdarreglunnar ætla ég að frekar að halda í mér að kalla eftir rannsóknum,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í Kastljósinu í kvöld.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, rifjaði upp sölu Landsbankans á hlut sínum í greiðslukortafyrirtækinu Borgun á Alþingi í gær í ljósi frétta af yfirtöku Visa International Service á Visa Europe en viðskiptin munu skila Borgun og Valitor milljörðum króna.
Var Bjarni meðal annars spurður hvort salan hefði verið klúður og hvort hann ætlaði að kalla eftir rannsókn á henni. Sagði hann að hver og einn þyrfti að meta fyrir sig hvort um klúður hefði verið að ræða og bætti við að Landsbankinn hefði teflt fram rökum til skýringar.
„Ég hef ekkert með stjórn bankans að gera“, sagði Bjarni. „Vegna armslengdarreglunnar ætla ég frekar að halda í mér að kalla eftir rannsóknum.“ Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna, og sonur Einars voru meðal þeirra sem keyptu hlut Landsbankans í Borgun.
Sagðist hann hvergi hafa reynt að verja niðurstöðu rannsóknar um hvernig komist var að niðurstöðu um verð á hlutnum. Þá sagðist hann fyrst hafa heyrt í fjölmiðlum hver kaupandinn að hlutnum hefði verið.
Landsbankinn seldi um mitt ár 2014 31,2% eignarhlut sinn í greiðslumiðlunarfyrirtækinu Borgun fyrir tæpa 2,2 milljarða króna og 38% hlut sinn í greiðslukortafyrirtækinu Valitor til Arion banka fyrir 3,6 milljarða króna haustið 2014.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var söluandvirði fyrir eignarhlutina fundið með því að margfalda eigið fé með liðlega tveimur í tilfelli Borgunar og 1,09 í Valitor. Því eru einhverjir þeirrar skoðunar að hlutur Landsbankans í Valitor hafi verið seldur á of lágu verið.
Fréttir mbl.is um málið:
Frétt mbl.is: Vill rannsókn á sölu Borgunar
Frétt mbl.is: Hafna ásökunum Árna Páls
Frétt mbl.is: Hafna fullyrðingum Landsbankans