„Það var óhemjusnjór hérna þegar flóðið kom niður hlíðina. Við vorum heima og heyrðum þunga dynki þegar snjórinn kom á húsgaflinn og alveg upp á þak,“ segir Eymundur Jóhannsson, íbúi við Kambastíg á Sauðárkróki, í samtali við Morgunblaðið, þegar hann lýsir snjóflóði sem kom niður Nafirnar 18. nóvember árið 2012.
Hann býr efst í svonefndri Kristjánsklauf í Nöfunum. Eymundur og kona hans eru ein fárra íbúa í götunni sem búa undir þeim stað við Nafirnar sem talinn er í hvað mestri snjóflóðahættu, samkvæmt nýju ofanflóðamati Veðurstofunnar fyrir Sauðárkrók.
Hættumatið hefur verið kynnt íbúum og bíður nú afgreiðslu hjá sveitarfélaginu, áður en það verður sent umhverfisráðherra til staðfestingar. Ekki hafa borist athugasemdir við matið í umsagnarferlinu.
Samkvæmt mati Veðurstofunnar eru nokkur svæði undir Nöfunum á svonefndu A-hættusvæði, þar sem minnst hætta er talin á flóði, en Kristjánsklaufin er skilgreind sem B-hættusvæði, enda hafa þar fallið snjóflóð oftar en einu sinni gegnum tíðina. Alls eru 25 hús og ein kartöflugeymsla á A-svæði en engar byggingar á sjálfu B-svæðinu.
Veðurstofan telur í skýrslu sinni almennt litla hættu á ofanflóðum, miðað við flesta aðra þéttbýlisstaði á landinu þar sem einhver hætta er á flóðum. Mælt er samt með því við sveitarfélagið að hvorki reisa né skipuleggja óstyrkt atvinnu- eða íbúðarhúsnæði á svæðum A og B.
Flóðið sem Eymundur lýsir varð sem fyrr segir í nóvember árið 2012. Það olli engum skemmdum, utan nokkurra trjáa sem brotnuðu í hlíðinni ofan við hús Eymundar.
„Ég varð að fara upp á þakið á eftir og moka snjónum af, sem á köflum var ansi mikill vestanmegin á þakinu,“ segir Eymundur þegar hann lýsir aðstæðum fyrir blaðamanni.
Þegar hús var tekið á honum um áramótin var fannfergið ekki mikið og erfitt fyrir ókunnuga að ímynda sér að þar hafi fallið snjóflóð.
„Það er ótrúlegt að standa hérna í brekkunni og horfa niður að húsinu. Þetta er nú ekki mjög bratt,“ segir Eymundur, sem býst ekki við að sveitarfélagið fari út í neinar sérstakar framkvæmdir vegna flóðahættunnar.
Nafirnar eru fornir sjávarbakkar, um 30-40 metra háir, yfir eldri byggðinni á Sauðárkróki. Inn í þær ganga nokkrar klaufir sem nefndar eru Grjótklauf, Grænaklauf, Kirkjuklauf, Kristjánsklauf og Gránuklauf.
„Þetta hljómar kannski undarlega fyrir suma en dóttir okkar er mjög næm og finnur sterkt fyrir þessu, hún hefur séð huldukonuna. Konan mun heita Rósa og var sú eina sem flutti með okkur. Yngra fólkið varð eftir frammi í Árgerði. Hún er víst hér einhvers staðar í hlíðinni,“ segir Eymundur og bendir upp brekkuna.
„Okkur skilst að nærvera Rósu sé svo sterk að hún komi fram á miðilsfundum hér á Króknum,“ bætir hann við brosandi en reyndar svolítið efins á svip. Hann segir konu sína og dóttur finna þetta meira. Þrátt fyrir snjóflóðahættuna segir hann þau sofa rólega þótt úti geisi stórhríð og fannfergi. Rósa haldi líklega verndarhendi yfir þeim.