„Sýnilegt með hærri launum í veskið

Skrifað undir kjarasamning ASÍ og SA á grundvelli rammasamkomulagsins.
Skrifað undir kjarasamning ASÍ og SA á grundvelli rammasamkomulagsins. mbl.is/Árni Sæberg

Samningarnir sem voru undirritaðir í dag á milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins ná til um 80-85 þúsund manns á almenna vinnumarkaðinum. Með þessu er verið að færa launaþróun þeirra að því sem var samþykkt í sameiginlegri launastefnu aðilanna með SALEK-samkomulaginu.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ segir að með þessu sé verið að ná mikilvægum áfanga í baráttu sambandsins, t.d. með hækkun lífeyrisréttinda. Hann segir að á næstunni verði svo hafin vinna við að þróa nýtt samningamódel sem var hluti af SALEK-samkomulaginu.

Frétt mbl.is: Skrifað undir SALEK-samkomulagið

Aðspurður um áhrif þessa samning á hinn almenna launamann segir hann að bæði sé um að ræða meiri launahækkanir á næstu árum en samið hafði verið um milli ASÍ og SA á síðasta ári og þá verði launahækkun ársins í ár miðuð við 1. janúar, en ekki 1. maí. „Finnst væntanlega í buddunni í formi jákvæðs kaupmáttar á þessu ári,“ segir hann og bætir við: „Þetta verður sýnilegt með hærri launum í veskið.“

Hækkanir næstu ára munu verða 4,5% árið 2017 og 3% árið 2018 í stað 3% og 2% sem áður hafði verið samið um.

Næstu skref eru að setja fulla vinnu í að þróa nýja vinnumarkaðsmódelið og segir Gylfi að félagsmenn og landsmenn allir muni verða varir við þá vinnu. Gerir hann ráð fyrir að snemma á næsta ári verði farið í atkvæðagreiðslu um slíkt módel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert