Þróunarverkefni íslenskra fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á Seychelleseyjum í Indlandshafi er viðvarandi, þótt aðeins hafi hægt á því eftir efnahagserfiðleikana. Um áratugur er síðan verkefnið hófst. Óhætt er að segja að það hafi reynst mjög árangursríkt. Héðan var sendur tölvubúnaður í gámavís, einnig hugbúnaður á ensku sem var sérhannaður til kennslu barna. Þá fóru héðan tæknimenn og aðrir sérfræðingar til að setja búnaðinn upp, þjálfa kennara og annað starfsfólk. Alls voru sendar héðan um 560 tölvur ásamt netbúnaði, prenturum og lagnaefni í fyrsta áfanga verkefnisins. Þannig tókst á skömmum tíma að setja upp tölvustofur í 20 af 23 grunnskólum Seychelleseyja. Í framhaldinu hefur verið veitt margskonar sérfræðiaðstoð og heimamenn verið þjálfaðir á hinum ýmsu sviðum tölvutækni og kennslu.
Verkefnið heitir „Small Islands - Great Nations“ sem þýðir litlar eyjar – miklar þjóðir. Guðmundur Hólmsteinsson, forstöðumaður tölvudeildar ÍAV, hefur verið frumkvöðull verkefnisins. Hann sagði að hugmyndin hefði kviknað þegar hann fór öðru sinni í frí til Seychelleseyja haustið 2005 ásamt eiginkonu sinni, Maríu Kristínu Thoroddsen, og Þorgerði Völu dóttur þeirra hjóna sem þá var 13 ára. Þorgerður Vala fékk frí í skólanum hér heima og fór í staðinn í tvo daga í efri bekki stórs grunnskóla á Seychelles og sagði frá Íslandi í máli og myndum.
Guðmundur sótti dóttur sína í skólann og þurfti að bíða aðeins eftir henni. Hann bað húsvörðinn að sýna sér tölvustofu skólans þar sem voru 800 nemendur. Þar voru sex gamlar tölvur og ein þeirra virkaði.
Guðmundur hefur unnið í tölvugeiranum frá árinu 1983 og þekkir því marga á því sviði. Á þessum árum var víða verið að endurnýja tölvubúnað hér á landi. Guðmundur fór af stað og kannaði möguleikana á að útvega notaðan en nothæfan búnað. Þeirri málaleitan var mjög vel tekið og voru sendir héðan samtals þrír gámar fullir af búnaði næstu árin. Auk þess fóru héðan tæknimenn sem settu upp tölvunet í skólunum og tengdu tölvurnar.
Þeir sem lagt hafa verkefninu lið í gegnum árin eru fyrirtæki á borð við ÍAV, Advania, Íslandsbanka, Opin kerfi, Arion banka, Eimskip, IBM, Skýrr, Microsoft og forverar þeirra. Auk þeirra Reykjavíkurborg, Námsgagnastofnun og Hafnarfjarðarbær.
Kennsluhugbúnaðurinn kom frá Námsgagnastofnun sem naut stuðnings UNESCO við þróun hans. Hildigunnur Halldórsdóttir, höfundur kennsluhugbúnaðarins, fór ásamt fleirum og þjálfaði kennara á Seychelleseyjum. Guðmundur sagði að hugbúnaðurinn hefði verið lykillinn að góðum árangri verkefnisins. „Börnin líta á þetta sem leiki og læra um leið án þess að vita af því,“ sagði Guðmundur.
Í öðrum fasa verkefnisins árið 2008 var kennaraskóla Seychelleseyja gefinn búnaður til að útbúa margmiðlunarefni og voru kennarar þjálfaðir á því sviði. Í framhaldinu fengu grunnskólarnir gefinn búnað til að þjálfa börnin í gerð margmiðlunarefnis. Í honum var bæði hug- og vélbúnaður. Sama ár fór héðan stærðfræðikennari sem kenndi þar í fimm mánuði sem sjálfboðaliði. Einnig fóru héðan hugbúnaðarsérfræðingar og lögðu grunn að gerð kennsluefnis fyrir kennara og nemendur yngstu deilda. Þá var unnið að uppsetningu yfirtökubúnaðar svo hægt væri að viðhalda búnaðinum í fjarvinnslu. Dræmt netsamband við eyjarnar olli því að það var ekki gerlegt, en 2012 batnaði netsambandið með komu ljósleiðara.
Efnahagsþrengingarnar hér eftir haustið 2008 ollu því að það hægði á verkefninu. Vélbúnaður lá ekki lengur á lausu hjá fyrirtækjum og stofnunum. Betur áraði hjá höfðingja einum frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Hann lét byggja fyrir sig átta hæða frístundahús á Seychelleseyjum og unnu um 2.000 manns í tvö ár við að bygginguna. Höfðinginn gaf grunnskólunum á Seychelleseyjum 1.300 fartölvur árið 2010. Þjálfun tæknimanna kom sér þá vel.
Menntamálayfirvöld á Seychelleseyjum hafa endurnýjað tölvubúnað í framhaldsskólum en vantar tæknimenn og sérfræðinga. Þau hafa óskað eftir aðstoð á því sviði, einkum á sviði hagnýtrar kennslu og þjálfunar.
Guðmundur sagðist sjá fyrir sér að aðstoðin við Seychelleseyjar yrði aðallega í formi sérfræði- og tækniaðstoðar í framtíðinni. Tæknimaður fór héðan 2014 til að yfirfara tölvuprentara. Blek (toner) í prentarana hefur verið sent frá Kína. Auk þess hefur verið veitt önnur tæknileg aðstoð.
„Við höfum verið í góðu sambandi við yfirvöld á Seychelleseyjum. Mér finnst að nú sé aftur að skapast grundvöllur fyrir að fá stuðning hjá fyrirtækjum hér til að senda tæknimenn til þess að kenna. Jafnvel einnig kennara til að þjálfa kennara,“ sagði Guðmundur. Hann sagði að þörfin nú væri aðallega fyrir þjálfun og kennslu. Nýr samstarfssamningur milli menntamálayfirvalda á Seychelleseyjum og íslensku samtakanna er tilbúinn til undirritunar. Guðmundur sagði undirritunina hafa beðið þess að aðstæður bötnuðu og málin skýrðust betur hér heima.
„Hugsanlega getum við gert eitthvað í haust,“ sagði Guðmundur. Hann sagði að tæknimenn og sérfræðingar væru fúsir til að fara til Seychelleseyja og allir sem hefðu farið þangað áður vildu fara aftur.
Einnig vantar kennsluforrit á creole-málinu, sem er tungan sem börnin tala þegar þau koma í skólann. Hugmyndir eru um að staðfæra kennsluforrit og þýða á creole fyrir yngstu börnin. Guðmundur sagði að ef til vill væri það næst á dagskrá.
Allir sem lagt hafa hönd á plóginn við verkefnið allt frá upphafi hafa gefið vinnu sína. Fyrirtækin sem þeir vinna hjá hafa stutt þá með ráðum og dáð. Símafyrirtækið á Seychelleseyjum hefur lánað Íslendingunum íbúðarhúsnæði og ríkisflugfélagið Air Seychelles gaf á tímabili afslátt af flugmiðum hluta leiðarinnar. Héðan til Seychelleseyja er um 13 klukkustunda flug.
Seychelleseyjar eru paradís á jörðu, að sögn Guðmundar.
„Þar er alltaf gott veður, þótt stundum rigni. Það koma aldrei fellibyljir þarna og 10 metra vindur á sekúndu telst vera hávaðarok! Eyjarnar eru rétt við miðbaug og sólin beint fyrir ofan kollinn á manni. Maður þarf ekki sólgleraugu! Þarna er gríðarlega fallegt og þægilegt loftslag,“ sagði Guðmundur sem á að baki tíu ferðir til eyjanna.
Dýralíf er fjölbreytt. Um 150.000 risaskjaldbökur og hvalhákarlar, stærstu fiskar í heimi, svamla í hlýjum og tandurhreinum sjónum Það er ævintýralegt að synda yfir kóralrifin og skoða litskrúðugt og fjölskrúðugt lífið neðansjávar.
„Það sem maður borðar þarna er fiskur, sem er jafn góður og á Íslandi, vatn og ávextir,“ sagði Guðmundur. Þarna vaxa bananar, mango og kókoshnetur hvert sem auga er litið.
Guðmundur sagði að þessu verkefni lyki aldrei því á hverju ári byrjaði nýr sex ára bekkur í skólunum.