„Við vissum það eftir umfjöllun á opinberum vettvangi á síðasta ári, um sölu Landsbankans á Borgun, að það fyrirtæki hafði verið selt til útvalinna kaupenda sem voru sérvaldir af Landsbankanum og fengu einir að bjóða í Borgunarhlutinn. Salan fór fram í leyni og án nokkurrar samkeppni um verð og verðið var hlálegt miðað við virði fyrirtækisins og arðgreiðslur úr því.“
Þetta sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag þar sem hann beindi fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um sölu Landsbankans á eignarhlut bankans í kortafyrirtækinu Borgun. Sagði Árni að síðan hefði komið í ljós, sem vitað hefði verið fyrir, að landsbankinn hefði gert alvarleg mistök við verðmat á fyrirtækinu. Hann hafi þannig ekki tryggt sér aðgang að þeim miklu greiðslum sem hann annars hefði fengið í tengslum við yfirstöku Visa International Services á Visa Europe ólíkt því sem gerðist við sölu á hlut í Valitor.
„Bankinn virðist líka hafa gróflega vanmetið það viðskiptatækifæri sem í fyrirtækinu Borgun fólst, ef hægt er að nýta það á einu ári til að afla gríðarlegra verðmæta umfram það sem söluverð á 20% hlut hljóðar upp á,“ sagði Árni ennfremur og spurði Bjarna hvernig hann ætlaði að bregðast við málinu. Fjármálaráðherra benti á að Landsbankinn hefði sjálfstæða stjórn og Bankasýsla ríkisins færi með hlut ríkisins í bankanum. Málefni Landsbankans væru þannig ekki á borði sínu nema með almennum hætti.
„Ég ætla ekki að fara í umræðu hér um það hvernig var staðið að sölunni, enda hef ég ekki neina forsendu til þess, en mér skilst að stjórnendur Landsbankans hafi áður komið fyrir þingnefnd hér og gert grein fyrir málinu. Ég tek eftir því að Landsbankinn hefur sömuleiðis í tvígang í gær birt skýringar á heimasíðu sinni og undirstrikar með því að hann beri sjálfur ábyrgð á því að viðhalda trausti gagnvart bankanum. Það er margt þegar komið fram um þessi viðskipti, m.a. það að virðisaukinn í Borgun virðist hafa orðið til að verulegu leyti til eftir sölu Landsbankans á sínum hlut í Borgun,“ sagði Bjarni.
Þannig væru engar forsendur fyrir því að fjármálaráðherra færi inn í málið. „En ég styð að sjálfsögðu ef menn vilja skoða með einhverjum hætti hvernig þessi mál hafa gengið fram í ríkisfyrirtæki. Þá verða menn að fara eftir réttum boðleiðum, óska eftir því við Bankasýsluna eða eftir atvikum stjórn bankans. Ég er ekki í nokkrum einasta vafa um það að stjórn bankans eða stjórnendur eru reiðubúnir að koma fyrir þingnefndina, eins og þeir hafa áður gert, og gera grein fyrir þessum hlutum.“