1.100-1.300 íbúðir í Vogabyggð

Teikning af fyrirhugaðri Vogabyggð.
Teikning af fyrirhugaðri Vogabyggð. Mynd/Reykjavík

Skrifað var undir samninga vegna enduruppbyggingar Vogabyggðar í Reykjavík í dag. Verður gert ráð fyrir 1.100 til 1.300 íbúðum á svæðinu og 56.000 fermetrum af atvinnuhúsnæði. Í gildandi aðalskipulagi var gert ráð fyrir 450 íbúðum á svæðinu og því ljóst að um mikla fjölgun er að ræða. Meðal annars þarf að huga að byggingu skóla, nýrra gatna, landfyllingu, grjótvarna og nýrra stofnlagna. Áætlaður kostnaður Reykjavíkur vegna framkvæmdanna er um 8 milljarðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni.

Lóðarhafar taka þátt í kostnaði innviða

Vogabyggð afmarkast af Sæbraut, Kleppsmýrarvegi og Súðarvogi. Samningarnir ná til hluta Vogabyggðar, svæðis 2, en stærstu lóðarhafar þar eru Gámakó og Vogabyggð dótturfyrirtæki Hamla, sem eru í eigu Landsbankans. Samtals ráða þessi fyrirtæki yfir 70% lóða á svæði 2.

Í tilkynningu Reykjavíkur segir að samningarnir marki tímamót að því leyti að lóðarhafar taka þátt í kostnaði við breytingar á innviðum hverfisins og er það í samræmi við samningsmarkmið Reykjavíkurborgar um uppbyggingu í eldri hverfum.

Teikning af fyrirhugaðri Vogabyggð.
Teikning af fyrirhugaðri Vogabyggð. Mynd/Reykjavík

Eitt af lykilsvæðum í nýja aðalskipulaginu

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir samningana afar mikilvægt skref í átt að uppbyggingu hverfisins. „Það er mjög metnaðarfullt skipulag sem liggur fyrir og Vogabyggðin sjálf er náttúrlega á besta stað í borginni. Fjórðungur íbúðanna sem þarna rísa verða undir leigu- og búseturéttaríbúðir og höfum við nú samið við lóðarhafa um þátttöku í uppbyggingu innviða. Verkefnið í heild er svo eitt af lykilsvæðum í Aðalskipulagi Reykjavíkur þannig að ég er mjög spenntur fyrir þessu,“ segir Dagur. 

„Það er fagnaðarefni að sjá glæsilega íbúðabyggð rísa á gömlu og lúnu iðnaðarsvæði.  Við höfum lengi beðið eftir þessu,“ segir Gunnar Bragason framkvæmdastjóri Gámakó og Gámaþjónustunnar hf.  Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans tekur í sama streng: „Þetta er gríðarlega mikilvægur áfangi og ánægjulegt fyrir Landsbankann að taka þátt í einum umfangsmestu endurbyggingar­áformum í Reykjavík í langan tíma. Við höfum unnið með borginni í þessu verkefni frá ársbyrjun 2013 og það er ánægjulegt að taka þátt í að skapa nýja framtíð hér á svæðinu.“

Frá kynningunni í dag.
Frá kynningunni í dag. Mynd/Reykjavík

Leiguíbúðir um fjórðungur íbúða á svæðinu

Miðað við þær skipulagsáætlanir sem nú er unnið að er gert ráð fyrir að í hverfinu verði 1.100 – 1.300 íbúðir og atvinnuhúsnæði um 56.000 fermetrar.  Gildandi aðalskipulag gerir ráð fyrir 450 íbúðum. Þessi fjölgun íbúða í hverfinu kallar á byggingu grunn- og leikskóla, en miðað er við að ráðist verði í þær framkvæmdir í samræmi við uppbyggingu íbúðabyggðar.  Í samningum er kvöð um að leiguíbúðir, stúdenta- og búseturéttaríbúðir verði 20 – 25% íbúða.

Í Vogabyggð eru áformaðar framkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykja­víkur við gerð gatna, torga, stíga, strandstíga, landfyllinga, grjótvarna og nýrra stofnlagna, útsýnis- og göngupalla í samræmi við hugmynd að nýju deiliskipulagi. Auk þess er gert ráð fyrir göngubrú og stíflu við Háu­bakka­tjörn, brú yfir Naustavog, færslu á Kleppsmýrarvegi og færslu skólpdælustöðvar.

Áætlaður kostnaður Reykjavíkurborgar við uppbyggingu skóla og allra innviða í hverfinu er um 8 milljarðar króna.

Nánar um verkefnið á vef Reykjavíkur 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert