Varð harðvítug fjölskyldudeila til þess að hjónin Tryggvi Jóakimsson kaupmaður, sem var vararæðismaður Breta á Ísafirði, og eiginkona hans, Margarethe Häsler, voru handtekin af breska setuliðinu sumarið 1941 og kastað í fangelsi ytra?
Þessu veltir sonarsonur þeirra, Helgi Felixson, fyrir sér í nýrri heimildarmynd sem frumsýnd verður í Bíói Paradís á fimmtudaginn kemur. Hjónunum var gefið að sök að hafa skýlt þýskum nasista, August Lehrmann, sem farið hafði hulfu höfði vestur á fjörðum.
Tryggvi Jóakimsson var virtur maður og vinsæll á Ísafirði. Réttnefndur máttarstólpi í samfélaginu. Handtakan og fangavistin í Bretlandi var honum afar þungbær og sagt er að hann hafi aldrei jafnað sig á þessari erfiðu lífreynslu. Hann lést árið 1956, merkilegt nokk, sama ár og Helgi sonarsonur hans fæddist.
„Þetta var óskaplegt áfall fyrir gamla manninn enda kom þetta honum í opna skjöldu,“segir Helgi. „Það vissu allir á Vestfjörðum af þessum Þjóðverja sem var á flótta en ekkert bendir til þess að afi hafi komið að því að aðstoða hann með neinum hætti. Ég fjalla meðal annars um bréf sem hann ritaði sonum sínum þremur skömmu eftir handtökuna, þar sem hann kemur af fjöllum. Ekki er annað að sjá en það bréf sé einlægt. Líka annað bréf sem afi skrifaði yfirvöldum úr fangelsinu. Þar neitar hann öllum tengslum við Lehrmann og spyr hvort svilkona hans, Gertrude Häsler, hafi hugsanlega bendlað sig við málið. Seinna bar fjöldi fólks að afi hefði aldrei verið viðriðinn August Lehrmann. Það er líka merkilegt að yfirheyrslurnar yfir Lehrmann sé hvergi að finna. Hvernig stendur á því?“
Nánar er rætt við Helga í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.