Samningafundur starfsmanna álversins í Straumsvík og viðsemjenda þeirra í morgun stóð stutt yfir. Gylfi Ingvarsson, talsmaður starfsmannanna, segir að fulltrúar álversins hafi ekki haft neinn nýjan boðskap frá höfuðstöðvunum. Það hafi lítið upp á sig að boða til nýs fundar á meðan sú sé staðan.
Fundurinn fór fram í húsnæði ríkissáttasemjara og hófst klukkan tíu í morgun. Honum lauk hins vegar aðeins stundarfjórðungi síðar, að sögn Gylfa. Ástæðuna segir hann yfirlýsingu forstjóra Rio Tinto um að engar launahækkanir verði veittar á þessu ári. Fulltrúar álversins hafi ekki haft neinn nýjan boðskap frá höfuðstöðvunum í farteskinu og því sitji allt fast ennþá.
Í framhaldinu segir Gylfi að starfsmenn séu að ræða stöðuna og skoða hvernig hægt sé að skapa þrýsting á fyrirtækið um að gera sambærilegan kjarasamning og gerður var á almennum markaði.
„Það er verið að móta stefnu í íslensku samfélagi sem yfirlýsing Rio Tinto gengur þvert á,“ segir Gylfi.
Engir frekari fundir hafa verið ákveðnir í kjaradeilunni.
„Það hefur lítið upp á sig,“ segir Gylfi.