Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hugmyndir Kára Stefánssonar um að hækka útgjöld til heilbrigðismála kalli væntanlega á skattahækkun. Kári hefur undanfarið kallað eftir því að framlög til heilbrigðismála fari úr 8% af vergri landsframleiðslu upp í 11%. Brynjar varar aftur á móti við því að með hækkun skatta geti landsframleiðsla dregist saman, en með því gæti markmiðið um 11% náðst.
Í pistli á vefsvæði sínu segir Brynjar að á mannamáli þýði undirskriftasöfnun Kára að hann vilji bæta við um 50 milljörðum til heilbrigðismála á hverju ári, miðað við núverandi stöðu. „Að því að ég þykist vita að Kári hafi megnustu andúð á öllu lýðskrumi er eðlilegt að spyrja hvar hann vilji skera niður á móti þessum 50 milljörðum sem bæta á í heilbrigðiskerfið,“ segir Brynjar.
Segir hann ólíklegt að það verði frá elli- og örorkulífeyrisþegum eða stuðningi við listir og menningu. Tæplega sé það einnig úr fæðingarorlofssjóði. Niðurstaðan sé því líklegast að hækka skatta.
Frétt mbl.is: Kári safnar undirskriftum
Frétt mbl.is: Reiknar með ásökunum um lýðskrum