Vita lítið um hatursglæpi á Íslandi

Frá mótmælum Pegida-hreyfingarinnar í Belgíu. Hatursglæpum hefur fjölgað í Evrópu …
Frá mótmælum Pegida-hreyfingarinnar í Belgíu. Hatursglæpum hefur fjölgað í Evrópu undanfarið. AFP

Vísbendingar eru um að innflytjendur verði fyrir mismunun og fordómum hér á landi en nær ekkert er vitað um umfang svonefndra hatursglæpa gegn þeim eða öðrum hópum, að sögn Eyrúnar Eyþórsdóttur, lögreglufulltrúa og mannfræðings. Hún hefur það verkefnið að skoða stöðu þessara mála á Íslandi.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk Eyrúnu til að stýra þróunarverkefni sem varðar hatursglæpi. Það er samheiti yfir verknað sem varðar almenn hegningarlög og er framin af ásetningi sem byggist á fullu eða hluta til á neikvæðum viðhorfum til brotaþola vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar viðkomandi. 

Lítið er hins vegar vitað um stöðu þessara mála hér á landi, að sögn Eyrúnar. Á Norðurlöndunum og Vestur-Evrópu hafi mikil áhersla verið lögð á að lögregla bregðist við hatursglæpum. Íslendingar hafi lítinn þátt tekið í þeirri þróun og Evrópunefnd gegn umburðarleysi og kynþáttafordómum hafi meðal annars beint tilmælum til íslenskra stjórnvalda að þjálfa þurfi íslenska lögreglumenn til að starfa í fjölmenningarsamfélagi.

Skapar óöryggi hjá öllum hópnum

Eyrún segir að þar sem að aðeins einn dómur hafi fallið sem varðar grein 233a í almennum hegningarlögum um hatursglæpi þá sé lítið vitið um hvernig dómstólar myndu taka á slíkum málum, hvort slíkir glæpir séu almennir á Íslandi og hvernig þeir birtist.

„Það er kannski svolítið mitt hlutverk að kafa ofan í það. Út frá því munum við svo bregðast við. Ef það kemur í ljós að það eru hatursglæpir framdir hér að það verði settur meiri mannskapur í að sinna því,“ segir Eyrún sem mun meðal annars taka við kærum vegna hatursglæpa.

Þó að vísbendingar séu um í rannsóknum og fjölmiðum að innflytjendur verði fyrir mismunun og fordómum á Íslandi segir Eyrún að það skili sér ekki mikið inn á borð lögreglunnar. Til þess þurfi brotin þó að varða við hegningarlög og ásetningur þurfi að vera um neikvætt viðhorf gagnvart brotaþolanum.

„Hatursglæpir eru þannig að yfirleitt þekkjast gerandinn og brotaþolinn lítið sem ekkert út af því að það er náttúrulega verið að ráðast á fólk út af því hvað það er en ekki hvert það er. Þetta er ekki beint persónulegt heldur beinist að öllum hópnum. Þess vegna eru hatursglæpir taldir hafa miklu víðtækari og alvarlegri afleiðingar en aðrir glæpir af því að þeim er ætlað að skapa óöryggi hjá öllum hópnum sem brotaþoli tilheyrir,“ segir Eyrún.

Liggur ekki yfir ummælakerfunum

Ekki þarf að glugga lengi í ummælakerfum íslenskra fjölmiðla eða umræðuhópum á Facebook til að finna dæmi um orðræðu í garð ýmissa hópa sem gæti talist hatursorðræða, ekki síst í garð múslima. Eyrún segir að sums staðar í Evrópu sé hatursorðræða flokkuð með hatursglæpum en ekki alls staðar.

Vegna þess að aðeins einn dómur hafi fallið um hatursorðræðu á Íslandi sé lítið vitað um hvar mörk tjáningarfrelsisins liggja í þessum efnum. Í fyrra hafi Samtökin '78 sent inn sjö kærur til lögreglu vegna hatursorðræðu í garð hinsegin fólks. Kærunum hafi í fyrstu verið vísað frá en saksóknari skipaði lögreglu að rannsaka málin eftir að samtökin kærðu frávísunina.

„Sem gefur til kynna að ríkissaksóknari telji að það geti verið eitthvað í þessari orðræðu sem varðar við lög. Þess vegna var brýnt að rannsaka þessi mál til að þau fari til dómstóla sem geti sett línuna um hvað má og hvað má ekki,“ segir Eyrún.

Það er þó ekki hluti af starfslýsingu Eyrúnar að liggja yfir ummælakerfum fjölmiðla á netinu til að finna saknæm ummæli en hún segist þó munu fylgjast með umræðunni.

„Umræðan, sérstaklega í garð múslima, er farin að verða grimmari þannig að ég mun sannarlega fylgjast með. Margir hræddust það svolítið þegar þessi staða var ákveðin því fólk hélt að nú yrði tjáningarfrelsið afnumið nánast. Orðræðan er hluti af þessu en þetta snýst líka um það að það er jafnvel verið að beita fólk mismunun eða ofbeldi vegna uppruna eða litarháttar. Við erum í raun að horfa á allan hegningarlagabálkinn,“ segir hún.

Sjálf mun Eyrún ekki rannsaka kærur um hatursglæpi heldur vera lögreglumönnum til stuðnings og vakta mál af þessu tagi.

Þjóðernissinni smánaði Afríkubúa í DV-viðtali

Þessi eini dómur sem Eyrún vísar til og varðaði ákvæði hegningarlaga sem gerir það refsivert að ráðast að opinberlega að manni eða hópi manna vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða eða kynhneigðar féll í Hæstarétti árið 2002.

Þá var Hlynur Freyr Vigfússon, sem þá var varaformaður Félags íslenskra þjóðernissina, dæmdur til að greiða 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs eða sæta tuttugu daga fangelsi vegna ummæla sem hann lét falla í viðtali við Helgarblað DV 17. febrúar árið 2001. Sigríður J. Friðjónsdóttir, núverandi ríkissaksóknari, sótti málið fyrir hönd ákæruvaldsins.

„Það þarf engan snilling eða erfðafræðivísindamann til að sýna fram á hver munurinn er á Afríkunegra með prik í hendinni eða Íslendingi. Vestrænar þjóðir vorkenna Afríkubúum mjög mikið en þeir búa þarna í gróðursælustu álfu heims og gætu framleitt sex sinnum meira af mat en þeir þurfa ef þeir nenntu því. Við búum hér á grjóthnullungi, höfum ekkert nema fiskinn og klakann og höfum það bara stórfínt á meðan þeir nenna ekki að berja af sér flugurnar,“ sagði Hlynur Freyr í viðtalinu.

Með þessum orðum var hann talinn hafa upphafið hvíta menn á kostnað manna af öðrum litarhætti með háði, rógi og smánun. Hæstiréttur fullyrti þó ekki í dómi sínum að orðið „negri“ teldist niðrandi í íslensku máli.

Sumir nota Facebook til að fá útrás fyrir andúð sína …
Sumir nota Facebook til að fá útrás fyrir andúð sína á tilteknum samfélagshópum eins og innflytjendum eða hinsegin fólki. mbl.is/Ernir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka