„Á einu ári er allt orðið ómögulegt. Lífsneistinn hans hefur farið eftir að ofbeldi byrjaði. Núna segir hann bara að hann vilji deyja.“
Þetta segir Bryndís Björnsdóttir, móðir tólf ára nemanda í Fellaskóla í Reykjavík sem hefur orðið fyrir harkalegu einelti og líkamlegu ofbeldi í skólanum. Hópur drengja í skólanum hefur að sögn Bryndísar strítt syni hennar og öðrum börnum í mörg ár en síðasta árið hefur stríðnin þróast út í ofbeldi. Bryndís segir hafa átt í góðum samskiptum við skólastjórnendum síðustu mánuði en sé þrátt fyrir það að gefast upp, drengurinn er hættur að vilja mæta í skólann og er mætingareinkunn hans orðin vandamál.
„Hann vill bara fá að stunda skólann sinn í friði en getur það ekki vegna kvíða og þeirrar niðurlægingar sem hann verður stöðugt fyrir,“ segir Bryndís.
Sonur Bryndísar er einhverfur og fær sérkennslu í skólanum. Að sögn Bryndísar virðist vera að þeir sem eru minnimáttar í skólanum verði fyrir barðinu á þessum ákveðna hóp og lítið sé gert í skólanum til að stöðva þá. Þegar Bryndís er beðin um að lýsa ofbeldinu sem sonur hennar verður fyrir nefnir hún atvik þar sem hópur drengja sat fyrir honum og vini hans þegar þeir voru á leiðinni í sund. „Þar voru bara hnefarnir á lofti,“ segir Bryndís. „Strákurinn minn náði að hlaupa heim en hann er ekki alltaf það heppinn. Í fyrra var hann tekinn úr fötunum og hrint í snjóinn. Hann kom hrakinn og blautur heim, skórnir týndir, bækurnar ónýtar, allt ónýtt.“ Hann hefur einnig verið læstur inni í geymslu í leikfimistíma.
Þá hefur skólataska drengsins einnig verið skemmd en hópur skólafélaga hans klippti böndin á henni þannig að hún er ónýt. Þetta eru aðeins fáein dæmi. „Fötin hans eru alltaf að eyðileggjast og skórnir. Ætli þetta séu ekki svona 3-4 pör af skóm hverja önn sem eru annaðhvort eyðilagðir eða teknir. Flestir þeirra enda uppi á þaki skólans,“ segir Bryndís.
„Þetta var einelti og stríðni en nú er þetta orðið ofbeldi. Því eldri sem þeir eru því harðara verður þetta,“ segir Bryndís. Sonur hennar er í dag í sjöunda bekk en Bryndís segir eineltið hafa byrjað í öðrum bekk.
Bryndís segir son hennar eiga góða daga og slæma daga í skólanum. Hún er ánægð með viðbrögð núverandi skólastjórnenda sem hafa hitt hana og reynt að finna lausnir. Þá hefur drengurinn leyfi til að koma heim líði honum illa um miðjan dag. En þrátt fyrir það er slæm mæting drengsins vegna vanlíðanar farin að bitna á einkunnum hans.
„En ég hef hann frekar heima og ánægðan heldur en að senda hann út í hættuna,“ segir Bryndís og bætir við að hann læri heima eins vel og hann geti. „Ég ætla ekki að koma að barninu mínu látnu inni í herbergi.“
Að sögn Bryndísar má lítið út af bera hjá syni hennar og er hann sjálfur farinn að bregðast við ofbeldinu með því að beita aðra ofbeldi. Bryndís hefur sérstaklega áhyggjur af því þar sem sonur hennar er stór og sterkur að hennar sögn. „Á ég að bíða eftir því að það komi eitthvað fyrir?“ spyr hún.
Á góðum dögum gengur vel að sögn Bryndísar. Þá er hann látinn í friði og yfirleitt líður dagurinn án þess að hann sjái einn ákveðinn dreng, sem Bryndís segir vera forsprakka „klíkunnar“.
„Hann þarf ekki nema rétt að sjá í hann í skólanum þá virðist allur dagurinn vera farinn, þá er allt ómögulegt,“ segir Bryndís. Aðspurð út í meintan foringja hópsins segir hún hann stjórna eineltinu og ofbeldinu og láti hina og þessa gera hluti fyrir sig.
Eins og fyrr segir tóku nýir skólastjórnendur við í Fellaskóla í haust. Bryndís segist hafa átt í góðum samskiptum við þá en segist hafa haft slæma reynslu af forverum þeirra.
„Þessi sem tóku við í haust hafa tekið rosalega vel á þessu, þau hafa komið heim til mín og rætt málin við mig,“ segir Bryndís en telur það þó ekki nóg. Að hennar mati er eina lausnin að hópnum sem stundi ofbeldið verði vikið úr skólanum.
Bryndís nefnir einn vin sonar hennar sem var einnig lagður í einelti af þessum sama hópi og beittur ofbeldi. Hann endaði á því að skipta um skóla. „Ég veit um fleiri foreldra sem hafa gefist upp,“ segir Bryndís og nefnir að hún viti af að minnsta kosti fimm börnum sem hafa þurft að yfirgefa skólann út af þessum ákveðna hópi.
„Þau fara út af þessu einelti. Þau verða fyrir ofbeldi, símar og föt eyðilögð, þau eru bara marin og blá börnin.“
Eins og fyrr segir hófst eineltið þegar sonur Bryndísar var í 2. bekk, eða fyrir fimm árum. Í haust fékk Bryndís nóg og skrifaði færslu á Facebook þar sem hún lýsti eineltinu. Í kjölfarið birtist viðtal við Bryndísi á Pressunni. „Ég fékk bara nóg, búin að koma að lokuðum dyrum í fimm ár,“ segir Bryndís og bætir við að eftir að mál sonar hennar komst í fjölmiðla hafi skólastjóri skólans haft samband og viljað ræða málin.
Bryndís leggur áherslu á hversu ánægð hún er með störf nýrra skólastjórnenda en hún segir forverana ekki hafa ráðið við vandamálið. „Það virðast ekki finnast neinar skýrslur um þetta. Síðan átti sonur minn að vera byrjaður í endurgreiningu á unglingastigi vegna einhverfunnar en það virðist ekki finnast eitt eða neitt þarna. Það er eins og fyrri skólastjórnendur hafi ekkert gert og ég er ekki sú eina sem segir það.“
Aðspurð hvort að það sé möguleiki fyrir son hennar að skipta um skóla segir Bryndís að það yrði of mikið fyrir hann. Af tvennu slæmu yrði það verra að þurfa að skipta um umhverfi og kynnast nýju fólki þar sem hann er eins og fyrr segir einhverfur. Þá vill hann einnig fá að vera áfram í skóla með sínum vinum. „En svo er það líka spurningin um af hverju ég ætti að refsa syni mínum fyrir að vera fórnarlamb í þessu máli? Af hverju eiga saklausu börnin alltaf að víkja? Hann á sína góðu vini í skólanum og ég hef alltaf þakkað fyrir það. En það er samt ekki nóg.“
Að mati Bryndísar á að koma upp kerfi þar sem gerendur í eineltis- og ofbeldismálum fái aðvörun við fyrsta brot, rekinn úr skólanum tímabundið við annað brot en látinn víkja úr skólanum við það þriðja.
Eina lausnin á vandanum sem Bryndís sér fyrir sér er að gerendunum verði vikið úr skólanum. „Maður er orðinn þreyttur á þessu. Við erum búin að reyna allt.“
Að sögn Bryndísar getur sonur hennar ekki farið út að leika að ótta við að rekast á drengina sem hafa beitt hann ofbeldi. „Hann er inni alla daga og fer ekkert út. Honum er fylgt í skóla á hverjum morgni ef hann fer. Þetta er orðið fangelsi.“
Eins og fyrr segir hafa einkunnir drengsins versnað síðasta árið vegna slæmrar mætingar en hann er í sérkennslu vegna einhverfunnar. Að sögn Bryndísar var hann mjög ánægður í skólanum áður og er það þegar hann á góða daga með sínum vinum. „Hann er skemmtilegur og kátur strákur, það vantar ekki. Á einu ári er allt orðið ómögulegt. Lífsneistinn hans hefur farið eftir að ofbeldi byrjaði. Núna segir hann bara að hann vilji deyja og spáir í það hvernig það er best að deyja. Þetta hræðir mig.“
mbl.is hafði samband við skólastjóra Fellaskóla sem vildi ekki tjá sig um málið eða almennt um eineltismál innan skólans.