„Ég held að það sé mjög mikilvægt að rekja atburðarásina í þessu máli, ákvarðanirnar, vegna þess að framundan er mikil sala ríkiseigna og það skiptir mjög miklu máli að hægt sé að byggja trúverðuga umgjörð um hana og hefja það yfir allan vafa að verið sé að verja hagsmuni ríkisins og gæta þess að fyrir almannaeigur fáist fullt verð.“
Þetta sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag þar sem hann beindi fyrirspurn að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra vegna sölu Landsbankans á hlut sínum í kreditkortafyrirtækinu Borgun. Sagði hann Sigmund hvort hann væri reiðubúinn að veita liðstyrk Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar við að rannsaka málið fyrir tilverknað Alþingis eða standa fyrir slíkri rannsókn að eigin frumkvæði.
Forsætisráðherra sagðist sammála Árna Páli um mikilvægi þess að tryggja að ríkið fengi sem mest fyrir þær eitgnir sem það ákveddi að selja og eins um það að upplýsa þurfi hvernig staðið hafi verið að sölunni á borgun sem hafi verið „augljóst klúður.“ Ráðherrann sagði hins vegar að Landsbankinn ætlaði víst að skila þinginu greinargerð um málið að eigin frumkvæði samkvæmt fréttum fjölmiðla. Málið hafi verið tekið upp á Alþingi og eðlilegt væri að þingið fylgdi því eftir.
„Málið hefur verið tekið upp hér á þingi, ekki hvað síst af háttvirtum þingmanni, og mér finnst eðlilegt að þingið fylgi þessu efni frekar en að einstakir ráðherrar fari að stofna til rannsókna, enda hafa þeir svo sem kannski ekki aðstöðu eða heimild til þess. En þingið hefur úrræði til þess að skoða þetta mál áfram og fylgja því eftir og fá svör við þeim spurningum sem háttvirtur þingmaður hefur varpað fram. Ég styð þingið í því,“ sagði ráðherrann.
Árni Páll lagði áherslu á mikilvægi þess að skýrar reglur giltu um sölu eigna á vegum ríkisins í ljósi þess að fyrir höndum stæði að selja hluti ríkisins í bönkum og eignir sem kæmu frá kröfuhöfum föllnu bankanna. Sigmundur tók undir það og benti á að þegar væru fyrir hendi slíkar reglur sem meðal annars gerðu ráð fyrir að sem mestum aðskilnaðir á milli stjórnmálanna og bankanna sem þýddi að erfitt og jafnvel ómögulegt væri fyrir að stjórnmálamenn að skipta sér af hlutum sem virtust ekki vera í lagi.
„Það þarf þá að gerast í gegnum þær stofnanir, það fyrirkomulag, sem komið hefur verið á til að fylgja slíkum málum eftir. Þessi mikla áhersla á að stjórnmálin komi hvergi nærri — það má velta því fyrir sér í þessu samhengi hvort menn geti jafnvel gengið of langt í því efni. Kannski þurfa stjórnmálin, fulltrúar almennings, að hafa fleiri tækifæri til að skipta sér af. Ekki til að skipta sér af daglegum rekstri banka eða slíku heldur til að grípa inn í ef eitthvað fer augljóslega úrskeiðis.“