Ekki er lengur hægt að horfa á sérstakar stöðvar sem bjóða upp á svokallaðar „bláar myndir“ í sjónvarpsþjónustu Símans. Að sögn upplýsingafulltrúa Símans er þessháttar efni einfaldlega tímaskekkja.
„Eftir að Síminn og Skjárinn voru sameinaðir fórum við í allsherjar naflaskoðun á afþreyingarefninu sem við vildum bjóða viðskiptavinum okkar. Við höfum gert margskonar breytingar og þessar gerðum við því okkur þóttu þessar læstu stöðvar engan vegin eiga heima í flottu, fjölskylduvænu vöruframboði Símans,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans í samtali við mbl.is.
„Það er einfaldlega tímaskekkja að bjóða upp á svona efni. Þeim var lokað um áramótin, þótt fyrr hefði verið, og hafa engar athugasemdir eða ábendingar borist eftir að þeim var lokað.“