Leynist fleira en nammi í skeiðinni á nammibörum?

Dönsk rannsókn sýnir að áhöld á nammibörum verslana geta verið …
Dönsk rannsókn sýnir að áhöld á nammibörum verslana geta verið smitleiðir fyrir árlegar umgangspestir. Styrmir Kári

Áhöld á nammibörum verslana geta verið smitleiðir fyrir árlegar umgangspestir. Þetta sýnir rannsókn sem gerð var á vegum sjónvarpsþáttarins Kontant sem sýndur var í danska ríkissjónvarpinu, DR, sl. fimmtudagskvöld. Sóttvarnalæknir segir erfitt að rjúfa þessa smitleið.

Fréttamaður Kontant fór með stóra sælgætisskál í verslanamiðstöð í Kaupmannahöfn og bauð fólki að fá sér úr henni með því að taka nammið upp með skeið. Allir sem þáðu boðið notuðu sömu skeiðina, eins og gert er á nammibörum í verslunum. Skeiðin var síðan send til rannsókna á sjúkrahúsinu í Hvidovre. Niðurstaða hennar var að talsverðar líkur væru á að sá sem notaði skeiðina til að taka upp sælgæti, sem hann síðan borðaði, smitaðist af umgangspest eða sýkingum og var nóróveiran sérstaklega nefnd í þessu sambandi. „Þú getur fengið svæsinn niðurgang á nammibarnum,“ segir í frétt DR um málið.

Fleiri rannsóknir hafa sýnt svipaða niðurstöðu. T.d. gerði norska dagblaðið Adresseavisen rannsókn á norskum nammibörum í fyrra og þar fundust saurgerlar. Talið var líklegt að þeir hefðu borist á skeiðar af höndum fólks sem ekki hefði þvegið sér um hendurnar eftir salernisferðir og þaðan í sælgætið.

Áhöldin eru þekkt smitleið

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir áhöld sem margir noti þekkta smitleið fyrir umgangspestir, veiru- og bakteríusýkingar. „Þær smitast með snertismiti, t.d. þegar fólk kemur við mengaðan hlut og borðar hann. Þannig dreifast veirur og þannig eru flest smit.“

Þórólfur segir flestar veirusýkingar vera öndunarfærasmit, sem berist á hendur fólks þegar það t.d. klóri sér í nefinu eða stingi fingrunum upp í munninn. Slíkt smit geti lifað í margar klukkustundir á höndum og álíka lengi á yfirborði hluta. „Tímalengdin fer reyndar eftir aðstæðum eins og t.d. bleytu, hita- og rakastigi. Ef það er gott æti fyrir bakteríurnar, t.d. sykurhúð eins og er á nammibörum, þá lifa þær lengur.“

Þórólfur segir vandséð hvernig hægt sé að koma að fullu í veg fyrir að sýkingar berist fólks á milli á fjölförnum stöðum eins og nammibörum og rjúfa þessa smitleið, snertismitið. „Við höfum verið að hvetja fólk til handþvotta og að nota handspritt. Þannig getur hver maður lagt sitt af mörkum til að hefta útbreiðsluna.“

Ólafur Ragnar Birgisson, verslunarstjóri í Hagkaup í Skeifunni, segir að á nammibar verslunarinnar noti viðskiptavinir skeiðar til að taka sælgætið úr kössum. „Við vorum með hanska, en þeir voru lítið notaðir,“ segir Ólafur. „Við skiptum áhöldunum út reglulega og það er strangt þrifaferli hjá okkur í allri sjálfsafgreiðslu, bæði hvað varðar nammibarinn og annað,“ segir Ólafur. Elín Björg Ragnarsdóttir, verslunarstjóri í Nettó Mjódd, segir að öskjurnar sem innihalda sælgætið á nammibarnum í búðinni séu þrifnar einu sinni í viku. Áhöldin séu líka þrifin a.m.k. daglega og skipt reglulega um þau. „Við gerum allt sem við getum til að halda þessu eins hreinu og við getum,“ segir Elín.

Nammibarir í verslunum eru skoðaðir reglulega

Óskar Ísfeld Sigurðsson, heilbrigðisfulltrúi og deildarstjóri matvælaeftirlits hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, segir að mikilvægt sé að þau áhöld, sem notuð séu til að taka sælgæti á nammibörum, séu ekki látin liggja í sælgætinu sjálfu. Verslanir fái leyfi til að starfrækja nammibari m.a. með þeim skilyrðum að sérstakur ábyrgðarmaður í versluninni hafi með þeim eftirlit.

„Fyrirtækin bera sjálf ábyrgð á að fara eftir þeim reglum og löggjöf sem gilda um starfsemi þeirra. Og eins og gefur að skilja snertir fjöldi viðskiptavina áhöldin og því óhreinkast handföngin. Það er nauðsynlegt að þvo þau reglulega og hafa til skiptanna. En það er rétt að taka fram að sælgæti er þannig matvara að það eru litlar líkur á að örverur fjölgi sér í því.“

Óskar segir að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur skoði nammibari eins og aðra sjálfsafgreiðslubari í reglubundnu eftirliti með matvælafyrirtækjum. Þar er m.a. fyrirkomulag þeirra og þrif skoðað og tekin sýni. Komi í ljós að einhverju sé ábótavant gerir eftirlitið kröfur um úrbætur.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir vandséð hvernig hægt sé að koma …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir vandséð hvernig hægt sé að koma að fullu í veg fyrir að sýkingar berist fólks á milli á fjölförnum stöðum eins og nammibörum Styrmir Kári
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert