Fyrsti fundur fjármálastöðugleikaráðs á árinu 2016 var haldinn föstudaginn 22. janúar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Fjallað var um áhættu í fjármálakerfinu og fram kom að horfur væru á auknu ójafnvægi í þjóðarbúskapnum á næstu misserum.
Þetta kemur fram á heimasíðu Seðlabanka Íslands.
Vöxtur útlána lánakerfisins í heild væri enn innan hóflegra marka en líkur væru á aukinni eftirspurn eftir útlánum í náinni framtíð.
„Samspil þjóðhagslegs ójafnvægis og útlánavaxtar gætu haft neikvæð áhrif á fjármálakerfið. Viðnámsþróttur bankanna væri töluverður en vel væri fylgst með lausafjárstöðu þeirra, sérstaklega vegna uppgjörs nauðasamninga slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja og útboðs í tengslum við losun og bindingu aflandskróna,“ segir á vef Seðlabankans.
Aðalaefni fundarins voru eiginfjáraukar en ákvæði um þá í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, tóku gildi 1. janúar 2016. Með hliðsjón af greiningum kerfisáhættunefndar beinir fjármálastöðugleikaráð því til Fjármálaeftirlitsins að komið verði á þremur eiginfjáraukum: eiginfjárauka vegna kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja, eiginfjárauka vegna kerfisáhættu og sveiflujöfnunarauka. Verndunarauki tók gildi um síðustu áramót sbr. 84. gr. e. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en hann krefst ekki tilmæla frá fjármálastöðugleikaráði.
Fjármálastöðugleikaráð beinir eftirfarandi tilmælum til Fjármálaeftirlitsins:
1) Að settur verði 2% eiginfjárauki á kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, á samstæðugrunni, frá 1. apríl 2016. Kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki eru Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og Landsbankinn hf. eins og skilgreint var á fundi fjármálastöðugleikaráðs 14. apríl 2015.
2) Að settur verði á eiginfjárauki vegna kerfisáhættu sem nemur 3% af áhættuvegnum innlendum eignum á kerfislega mikilvægar innlánsstofnanir, það er Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og Landsbankann hf., frá 1. apríl 2016. Eiginfjárauki vegna kerfisáhættu á aðrar innlánsstofnanir [1] fari stighækkandi og verði 1% af áhættuvegnum innlendum eignum 1. apríl 2016, 1,5% frá 1. janúar 2017, 2,0% frá 1. janúar 2018 og 3% frá 1. janúar 2019. Eiginfjáraukinn taki til þessara innlánsstofnana á samstæðugrunni.
3) Að settur verði 1% sveiflujöfnunarauki á öll fjármálafyrirtæki á samstæðugrunni, nema þau sem eru undanskilin eiginfjáraukanum skv. 4. mgr. 84. gr. d laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki og að hann taki gildi 12 mánuðum frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
Ekki er útlit fyrir að ákvörðun um gildi eiginfjáraukanna muni krefjast mikillar eiginfjáraukningar í fjármálakerfinu frá núverandi stöðu þess en Fjármálaeftirlitið hefur, allt frá könnunar- og matsferli 2014, mælst til þess að ákveðnar innlánsstofnanir gerðu ráð fyrir að lagðir yrðu á eiginfjáraukar. Þá gera tillögur fjármálastöðugleikaráðs ráð fyrir að veittur verði nokkur aðlögunartími til að bregðast við auknum eiginfjárkröfum. Miðað við núverandi eiginfjárstöðu fjármálakerfisins er nauðsynleg eiginfjáraukning vegna þessara eiginfjárauka um 9 ma.kr. fyrsta ársfjórðung 2017, eða 1,5% af heildar eiginfé innlánsstofnana m.v. núverandi stöðu. Í nágrannaríkjum okkar hefur innleiðingu eiginfjáraukanna verið hagað í samræmi við aðstæður í hverju landi og þeim beitt með nokkuð ólíkum hætti en flest ríkjanna hafa virkjað a.m.k. tvo þeirra.