Mega ekki heita Zoe eða Daniela

Mannanafnanefnd hafnaði nöfnunum Zoe og Daniela í byrjun mánaðarins. Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að hvorki sé hefði fyrir þeim nöfnum og að ritháttur þeirra teljist ekki vera í samræmi við íslenska málhefð.

Var það stafurinn Z sem varð til þess að nafninu Zoe var hafnað þar sem bókstafurinn er ekki notaður í íslenskri stafsetningu og er ritháttur nafnsins ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls.

Að mati nefndarinnar telst ritháttur nafnsins Daniela ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem i er ekki ritað á undan e í ósamsettum orðum. Á þennan rithátt nafnsins er því aðeins heimilt að fallast ef hann telst hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn. 

Þá var nafnið Þorbrá samþykkt þar sem það tekur íslenskri beygingu í eignarfalli og telst að öðru leyti uppfylla lög um mannanöfn. Millinafnið Fritz var samþykkt en verður ekki skráð í mannanafnaskrá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert