Stærðfræðingurinn og samfélagsrýnirinn Pawel Bartoszek segir að tölurnar sem Kári Stefánsson noti í undirskriftasöfnun sinni til endurreisnar heilbrigðiskerfisins séu ekki réttar.
„Tölurnar sem Kári notar tákna ekki það sem ætla má að meirihluti fólksins sem skrifar undir heldur að þær tákni. Það finnst mér óvandað,“ skrifar Pawel en alls hafa 45 þúsund manns tekið þátt í undirskriftasöfnuninni.
Hann skoðar sérstaklega orðalag Kára: „Við undirrituð krefjumst þess að Alþingi verji árlega 11% af vergri landsframleiðslu til reksturs heilbrigðiskerfisins.“
Pawel segir sína tilfinningu vera þá að flestir sem hafi skrifað undir telji að þegar Kári talar um Alþingi sé hann að meina opinber útgjöld til heilbrigðismála. Raunin sé samt sú að um er að ræða heildarútgjöld til heilbrigðismála. Mismunandi tölur séu að baki þessum tveimur flokkum.
„Alþingi getur auðvitað búið til kerfi þar sem fólk ver sjálft meira fé í heilbrigðismál en það ekki það sem Kári er að láta fólk kvitta undir. Ef hið opinbera eyddi 11% af VLF til heilbrigðismála þá væri það meira en nokkurt annað OECD ríki,“ skrifar hann.
Hann bætir við að ef Ísland vill eyða jafnmiklu og Skandinavía til heilbrigðismála þarf að fara úr 8,8% af vergri landframleiðslu í 10% en ekki 11% eins og Kári hefur haldið fram.
Hér má lesa pistil Pawels í heild sinni.