„Þykir almennt vænt um fólk“

Brynjar Níelsson og Kári Stefánsson
Brynjar Níelsson og Kári Stefánsson

„Ég ætlast til þess, þegar farið er með kröfur á hendur löggjafanum í undirskriftasöfnun, að almenningur sé ekki blekktur til fylgilags með röngum fullyrðingum og hálfsannleik. Sitt sýnist hverjum um gæði heilbrigðiskerfisins en það er beinlínis rangt að við séum eftirbátar annarra þegar kemur að framlögum til heilbrigðismála,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni um undirskriftssöfnun Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, þar sem kallað er eftir aukum framlögum til heilbrigðismála.

Brynjar segist hafa orðið fyrir nokkrum skömmum vegna gagnrýni á undirskriftasöfnunina og jafnvel sakaður um að ráðast gegn fólkinu í landinu. „Öll viljum við bæta heilbrigðiskerfið en tugmilljarða stjórnlaus innspýting fjámuna er ekki alltaf lausnin eins og dæmin sanna annars staðar. Ég ætlast einnig til þess að upplýst sé í undirskriftasöfnun sem þessari hvað svona kröfur þýða í fjárhæðum og hvaðan þeir fjármunir eigi að koma.“

Þingmaðurinn hafnar því ennfremur að með gagnrýni sinni hafi hann ráðist gegn fólkinu í landinu. „Mér þykir almennt vænt um fólk og eru Íslendingar mér sérstaklega kærir. Mér gengur ekkert annað til með gagnrýni minni en að gæta hagsmuna almennings. Skoðanir mínar ráðast ekki af því hvernig vindar blása hverju sinni og geðslag mitt gefur mjög takmarkað svigrúm til lýðskrums. Svo kemur oftar en ekki í ljós síðar að meirihlutaskoðunin er önnur en þeir háværustu halda.“

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert